Síðasta von Íslendingaliðsins Ribe-Esbjerg um að vinna sér inn þátttökurétt í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í handknattleik slokknaði í dag þegar liðið tapaði fyrir Elvar Erni Jónssyni og félögum í Skjern, 34:31, en leikið var á heimavelli Skjern-liðsins.
Þar með hefur Ribe-Esbjerg 20 stig þegar liðið á einn leik eftir eins og Ágúst Elí Björgvinsson og samherjar sem sitja í áttunda sæti með 23 stig. Tap Ribe-Esbjerg varð vatn á myllu Kolding sem er þar með öruggt um að ná áttunda sætinu. Fredericia sem átti veika von um áttunda sætið eins og Ribe-Esbjerg tapaði í gærkvöld fyrir Lemvig.
Rúnar Kárason skoraði 6 mörk fyrir Ribe-Esbjerg í dag og átti þrjár stoðsendingar. Daníel Þór Ingason skoraði einu sinni og átti tvær stoðsendingar.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk og átti tvær stoðsendingar fyrir Skjern sem situr í sjötta sæti fyrir lokaumferðina sem fram fer á páskadag.
Sveinn Jóhannsson og samherjar í SönderjyskE voru kjöldregnir af leikmönnum Bjerringbro/Silkeborg, 37:18. Bæði lið voru fyrir leikinn örugg um sæti á meðal átta efstu. Sveinn kom lítið við sögu í leiknum.