0
„Ég orðin afar spennt og ég veit að stelpurnar eru það einnig,“ sagði Andrea Jacobsen ein landsliðskvennanna í handknattleik fyrir æfingu landsliðsins í kvöld, síðustu æfingu landsliðsins hér á landi fyrir Evrópumótið sem hefst annan föstudag í Innsbruck í Austurríki með leik við hollenska landsliðið.
Til Sviss í fyrramálið
Andrea og stöllur hennar í landsliðinu kveðja Frón eldsnemma á morgun og fara til Sviss þar sem framundan eru æfingar og einnig tveir vináttuleikir við svissneska landsliðið á föstudag og sunnudag. Eftir næstu helgi verður haldið til Innsbruck þar sem íslenska landsliðið slær upp bækistöðvum meðan leikið verður við landslið Hollands, Úkaraínu og Þýskalands 29. nóvember, 1. og 3. desember.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Fíla mig mjög vel
Andrea hefur verið í mikilli sókn á tímabilinu og virðist kunna vel við sig hjá Blomberg-Lippe í Þýskalandi, þangað sem hún færði sig í sumar. „Ég fíla mig vel hjá liðinu, hef nóg að gera og hef fengið stórt hlutverk. Leikirnir eru margir svo maður er komin í góða leikæfingu. Ég er þar af leiðandi mjög sátt,“ segir Andrea sem sér fram á enn fleiri leiki á nýju ári með félaginu eftir að lið þess tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar um síðustu helgi.
Sjá einnig: EM-hópurinn hefur verið opinberaður
Reynslunni ríkari
Andrea segist vera reynslunni ríkari eftir þátttökuna með landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Noregi og Danmörku í fyrra. Áður en að leikjunum á Evrópumótinu kemur verða leikirnir við landsliðs Sviss sem einnig býr sig undir Evrópumótið enda einn af gestgjöfum þess ásamt Austurríki og Ungverjalandi.
„Núna er EM að nálgast og við erum æstar í að fara,“ sagði Andrea en átta mánuðir eru liðnir síðan landsliðið tryggði sér þátttökurétt. Þá var mótið í framtíðinni en nú er hægt að telja niður eins og jóladagatali þangað til „fyrsti pakkinn“ verður opnaður 29. nóvember í Innsbruck.
- 24 landslið taka þátt í EM kvenna. Þau hafa verið dregin í sex fjögurra liða riðla. Tvö lið halda áfram úr hverjum riðli yfir í milliriðla. Tvö neðstu liðin falla úr leik.
- Riðlakeppnin verður leikin í Debrecen í Ungverjalandi, Basel í Sviss og Innsbruck í Austurríki.
- Milliriðlar verða leiknir í Debrecen og Vínarborg.
- EM hefst 28. nóvember og lýkur með úrslitaleik 15. desember í Vínarborg.
„Við höfum unnið saman að þessu markmiði í fjögur ár, loksins er aðal markmiðið innan seilingar,“ sagði Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik.
Lengra viðtal er við Andreu á myndskeiði efst í fréttinni.
- Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
A-landslið kvenna – fréttasíða.