Svartfellingar lögðu Svía örugglega, 31:25, í fyrri leik dagsins á EM kvenna í handknattleik en þjóðirnar eiga sæti í milliriðli eitt á mótinu. Þetta var fyrsti sigur Svartfellinga í milliriðlum. Tapið gerði út um síðustu von Svía um að eiga einhvern möguleika á að leika um fimmta sætið en það sæti gefur þátttökurétt á HM að ári.
Því miður fyrir Svía þá var lið þeirra langt á eftir Svartfellingum frá upphafi til enda. Svartfellingar voru mikið sterkari og höfðu lausnir við flestu því sem sænska liðið bauð upp á að þessu sinni. Leikurinn var satt að segja aldrei spennandi. Slíkir voru yfirburðir svartfellska liðsins sem virðist síður en svo hafa misst móðinn þótt ekki hafi margt gengið upp hjá því á mótinu.
Svíar lentu snemma undir og voru aldrei mjög líklegir til þess að ógna liði Svartfjallalands. Sex marka munur var í hálfleik, 16:10. Mestur var munurinn átta mörk, 23:15, þegar 17 mínútur voru til leiksloka og minnstur fjögur mörk, 27:23, þegar sex mínútur lifðu af leiktímanum.
Jovanka Radicevic var frábær í liði Svartfellinga og var valin maður leiksins í leikslok. Hún skoraði 11 mörk í 12 skotum og var með fullkomna nýtingu í vítaköstunum fimm sem hún spreytti sig á.
Mörk Svartfellinga: Jovanka Radicevic 11, Durdina Jaukovic 6, Ema Ramusovic 4, Jelena Depsotovic 3, Majda Mehmedovic 2, Nikolina Vukcevic 1, Itana Grbic 1, Bobana Klikovac 1, Katarina Dzaderovic 1, Dijana Mugosz 1.
Varin skot: Marta Batinovic 5, Anastasija Babovic 2.
Mörk Svíþjóðar: Linn Blohm 8, Kristín Þorleifsdóttir 5, Nathalie Hagman 3, Jamina Roberts 3, Emma Rask 2, Isabelle Gulldén 2, Anna Lagerquist 1, Mathilda Lundström 1.
Varin skot: Filippa Idehn 8, Jessica Ryde 5.