- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM verður andleg þolraun

Frakkar fagna sigri á EM á heimavelli fyrir tveimur árum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Skipuleggjendur Evrópumóts kvenna í handknattleik segja að allir verði að gera sér grein fyrir að mótið sem nú stendur fyrir dyrum og hefst 3. desember verði ekki líkt öðrum stórmótum á síðustu árum. Þeir draga ekki fjöður yfir að þátttakan eigi eftir að reyna mjög mikið á alla og fara þess einnig á leit við keppendur að vera opinskáa um líðan sína meðan mótið stendur yfir.

Þrúgandi aðstæður


Margir geti orðið einmanna vegna þess að einangrunin getur orðið mikil og jafnvel þrúgandi fyrir þá sem ná sem lengst í keppninni. Á þetta jafnt við leikmenn, þjálfara, starfsmenn liðanna, dómara og starfsfólk sem mega ekki eiga bein samskipti við marga á næstu vikum. Viðbúið er að einhverjir þoli ekki einangrunina og óski að fara heim áður en keppni verður lokið. Þeim óskum verður að mæta, að sögn skipuleggjenda.

Skimanir á 72 klukkustunda fresti


Leikmenn allra liða munu búa í einangrun, eða svo kallaðri „búbblu“ á hóteli. Þar verða þeir að fara í skimun fyrir kórónuveiru á hverjum degi í aðdraganda mótsins eftir að liðið kemur saman á hótelinu. Um leið og mótið hefst fer hver leikmaður í skimun að lágmarki á þriggja sólarhringa fresti.

Engin bein samskipti


Enginn má fara út af hótelinu nema út í rútu á æfingar eða í leiki. Leikmenn og þjálfarar mega hvorki ræða við fjölskyldu eða fjölmiðla nema í gegnum síma. Eftir leiki fara leikmenn og þjálfarar rakleitt af leikvelli og út í rútu og inn á hótel þar sem þeir fara í sturtu og skipta um föt þar sem þeir verða lokaðir inni í „búbblunni.“


Á hótelinu verður hvert lið lokað af og hefur ekki samband við leikmenn annarra liða deili fleiri en eitt lið sama hóteli.

Strangar reglur eru eina leiðin

Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins, sem er helsti skipuleggjandi mótsins segir að allir verði að ræða opinskátt um líðan sína. Vænlegra geti verið að hætta keppni en að pína sig. „Án vafa á keppnin eftir að verða mörgum mjög erfið. Sumir geta mætt þeim aðstæðum sem þeim verða að búa við, aðrir ekki. Því miður er ástandið þannig að við verðum að vera með mjög strangar reglur til þess að mótið geti farið fram. Aðrir kostir eru ekki fyrir hendi um þessar mundir,“ sagði Bertelsen við TV2 í heimalandi sínu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -