Ísland tapaði fyrir Hollandi með fjögurra marka mun, 29:25, í annarri umferð riðlakeppni Evrópumóts 17 ára landsliða kvenna í Podgorica í Svartfjallalandi. Staðan í hálfleik var jöfn, 16:16.
Næsti leikur íslenska liðsins verður gegn Sviss á laugardaginn klukkan 15. Þá viðureign verður íslenska liðið að vinna ætli það sér að eiga möguleika á öðru af tveimur efstu sætum riðilsins.
Fyrri hálfleikur í viðureigninni í dag var jafn og spennandi auk þess að vera hraður og skemmtilegur. Aldrei munaði meira en einu marki.
Sóknarleikurinn gekk afar illa fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks með þeim afleiðingum að íslenska liðið skoraði aðeins fjögur mörk gegn framliggjandi 3/3 vörn hollenska liðsins.
Hollendingar fengu boltann á silfurfati hvað eftir annað og skoruðu auðveld mörk. Níu mínútum fyrir leikslok var hollenska liðið sex mörkum yfir, 26:20. Mestur varð munurinn sjö mörk 27:20.

Veik von vaknaði hjá íslenska liðinu á síðustu mínútum fyrir leikslok. Möguleiki gafst á að minnka muninn í tvö mörk hálfri mínútu fyrir leikslok en allt kom fyrir ekki.
Sviss vann Færeyjar, 31:20 í fyrri leik dagsins í riðlinum.

Mörk Íslands: Laufey Helga Óskarsdóttir 11, Eva Steinsen Jónsdóttir 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Roksana Jaros 3, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 3, Hekla Sóley Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 17, 36,9%.
Mörk Hollands: Guusje Hogervorst 7, Ivana Kwakman 7, Lise Smink 4, Esmee Pater 3, Jelena Ostojic 3, Veerle Hop 2, Mauren van der Vliet 1, Joy Hofman 1, Maria Tol 1.
Varin skot: Camay Berkhout 8, 50% – Danique Glorie 5, 22,7%.
EM17-’25: Leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.