Annan daginn í röð vann íslenska landsliðið viðureign sína á Evrópumóti 17 ára landsliða kvenna í handknattleik. Að þessu sinni lá austurríska liðið í valnum eftir 60 mínútna leik í Verde complex-íþróttahöllinni í Potgorica í Svartfjallalandi. Lokatölur, 31:27, fyrir Ísland sem var mest níu mörkum yfir, 27:18 og 31:22. Staðan í hálfleik var 17:14 fyrir Ísland.
Noregur á sunnudag
Síðari leikur íslenska landsliðsins á mótinu og um leið sá áttundi verður á sunnudagsmorgun klukkan 10 gegn norska landsliðinu. Leikið verður upp á 17. sætið. Austurríki keppir um 19. sætið við Litáen sem tapaði fyrir Noregi fyrr í dag.
Skjálfti í upphafi
Skjálfti var í íslenska liðinu á upphafsmínútunum í dag. Austurríska liðið var yfir, 7:4, þegar innan við 10 mínútur voru liðnar leiktímanum. Einkum skapaðist forskotið vegna hraðaupphlaupa í kjölfar þess að íslenska liðið tapaði boltanum á einfaldan hátt. Þegar tókst að setja undir lekann snerist dæmið við. Íslensku stúlkurnar náðu yfirhöndinni í fyrsta sinn, 10:9, eftir 15 mínútur með marki Vigdísar Örnu Hjartardóttur. Eftir það réði íslenska liðið lögum og lofum.

Framúrskarandi vörn og markvarsla
Varnarleikurinn var hreint framúrskarandi og enn og aftur fór Danijela Sara Björnsdóttir hamförum í markinu. Austurríska átti engin svör, sama hvað gert var. Yfirburðir íslenska liðsins voru svo miklir að það leyft sér að slaka verulega á klónni síðustu mínúturnar án þess að sigurinn væri í hættu.
Allir leikmenn íslenska liðsins skoruðu mark í leiknum að markvörðunum undanskildum.
Mörk Íslands: Ebba Guðríður Ægisdóttir 9, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Roksana Jaros 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Hekla Sóley Halldórsdóttir 2, Alba Mist Gunnarsdóttir 2, Eva Steinsen Jónsdóttir 1, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 1, Eva Lind Tyrfingsdóttir 1, Laufey Helga Óskarsdóttir 1, Klara Káradóttir 1, Guðrún Ólafía Marinósdóttir 1, Valgerður Elín Snorradóttir 1.
Í stuttu máli: 7:8 (10.) – 10:9 (15.) – 12:12 (20.) – 15:13 (25.) – 17:14 (30.) – 22:15 (35.) – 24:18 (40.) – 27:18 (45.) – 29:22 (50.) – 31:24 (55.) – 31:27 (60.).
Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 16/1, 40% – Erla Rut Viktorsdóttir 2/1.
EM17-’25: Leikjadagskrá í krossspili og um sæti
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.