U19 ára landsliðið í handknattleik kvenna kom til Podgorica í Svartfjallalandi síðdegis í gær eftir strangt ferðalag frá Íslandi. Á morgun hefst þátttaka í Evrópumótinu með viðureign við danska landsliðið. Eftir það tekur við leikur gegn Litáen á fimmtudag og við Svartfellinga á laugardag.
Alls taka 24 landslið þátt í mótinu. Þau leika í sex fjögurra liða riðlum. Eftir að keppni í riðlunum rennur sitt skeið fara tvö efstu lið hvers riðils áfram í keppni um efstu sætinu tólf í milliriðlum. Tvö neðstu lið hvers riðils eigast við um sæti 13 til 24.
Silfurlið HM í fyrsta leik
Víst er að fyrsti leikur íslenska landsliðsins, við Dani, verður afar krefjandi. Danir höfnuðu hafa hafnað í öðru sæti á tveimur síðustu stórmótum þessa aldursflokks, EM 17 ára og HM 18 ára á síðasta ári. Auk Dana má búast við ungverska landsliðinu öflugu að vanda en Ungverjar hafa unnið EM 19 ára landsliða kvenna í þrjú síðustu skipti.
Leikjadagskrá í riðlinum - íslenskir leiktímar:
9. júlí: Ísland – Danmörk kl. 10.
10. júlí: Ísland – Litháen kl. 10.
12. júlí: Ísland – Svartfjallaland kl. 15.
- Allir leikir mótsins verða sendir út á ehftv.com. Áskrift að mótinu kostar 5 evrur, eftir því sem næst verður komist.
Gerum allt til að stríða þeim
„Við búumst við mjög krefjandi leik á morgun gegn feikilega sterkum andstæðingi en að sama skapi ætlum við að gera allt til þess að stríða þeim og ná góðri frammistöðu. Það er verður okkar stærsta verkefni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson sem þjálfar U19 ára landsliðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni. Handbolti.is heyrði aðeins í Ágústi eftir að hann teygað svart og sykurlaust kaffið fyrsta morgun sinn í Podgorica.
Átta leikir framundan
„Andinn er góður í hópnum. Stelpurnar eru spenntar fyrir þátttökunni. Framundan er langt mót með átta leikjum. Við ætlum að nálgast þátttökuna í skrefum og bæta okkur jafnt og þétt eftir því sem á mótið líður,“ sagði Ágúst Þór en ásamt honum og Árna Stefáni er Jóhann Ingi Guðmundsson markvarðaþjálfari, Þorvaldur Skúli Pálsson sjúkraþjálfari og Guðríður Guðjónsdóttir farar- og liðsstjóri. Semsagt valinn maður í hverju skipsrúmi.
EM kvenna 19 ára hefst í næstu viku – keppnishópurinn valinn
Létt æfing við komuna
„Við tókum létta æfingu síðdegis í gær eftir að komið var til Podgorica, rétt til þess að ná ferðastrengjunum í leikmönnum,“ sagði Ágúst Þór sem verður með kraftmeiri æfingu síðar í dag auk tveggja liðsfunda.
„Okkar undirbúningur miðast einfaldlega við að vera í sem bestu standi á morgun þegar við mætum Dönum,“ sagði Ágúst Þór.
Fínar aðstæður
„Aðstæður eru mjög góðar. Við búum á litlu en fínu hóteli í útjarðri borgarinnar ásamt landsliði Litáen. Við höfum ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson galvaskur í rigningunni í Potgorica í morgunsárið.
Handbolti.is heldur áfram að klóra í bakkann og ætlar að freista þess að fylgjast með U19 ára landsliðinu á EM 2025.