Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, leikur um sæti 13 til 24 á Evrópumóti kvenna í handknattleik. Það liggur fyrir eftir fimm marka tap fyrir Svartfellingum í dag, 36:31, í uppgjöri um annað sæti B-riðils í Bemax Arena í Potgorica í Svartfjallalandi. Heimaliðið var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 19:16.
Síðari í dag skýrist hvort Ísland mætir Ungverjum eða Pólverjum á mánudag í milliriðlakeppninni um sæti 13 til 24. Víst er hinsvegar að á þriðjudaginn bíður leikur við Norður Makedóníu sem rak lestina í A-riðli.
Á brattann var að sækja lengst af fyrir íslenska liðið í leiknum. Það komst einu sinni yfir, 11:10, um miðjan fyrri hálfleik. Svartfellingar svöruðu með fimm mörkum í röð og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

Upphafskafli síðari hálfleiks reyndist íslenska liðinu erfiður. Svartfellingar náðu sjö marka forskoti eftir sjö mínútna leik, 26:19. Þann mun voru íslensku stúlkurnar að berjast við að vinna niður allt til leiksloka. Þær lögðu allt í leikinn en höfðu ekki erindi sem erfiði, gegn líkamlega sterku og frekar hávöxnu liði Svartfellinga.
Ennþá er að miklu að keppa á mótinu en sextán efstu liðin tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða að ári liðnu.
Mörk Íslands: Arna Karítas Eiríksdóttir 7, Guðrún Hekla Traustadóttir 6, Ásthildur Þórhallsdóttir 5, Ásrún Inga Arnarsdóttir 4, Sara Lind Fróðadóttir 4, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 8, 2,8% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 10%.
EM19-’25: Leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit og staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.