U17 ára landsliðið í handknattleik kvenna fór frábærlega af stað á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann heimalandsliðið með tveggja marka mun, 20:18, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 10:7.
Skemmst er frá því að segja að svartfellska liðið var aldrei yfir á heimavelli í leiknum. Íslensku stúlkurnar mættu afar grimmar til leiks, tóku strax yfirhöndina og gáfu hana aldrei eftir.
Varnarleikurinn var afar góður frá upphafi til enda auk þess sem Ingunn María Brynjarsdóttir varði vel í markinu, alls 12 skot.
Íslenska liðið var tveimur til fjórum mörkum yfir allan síðari hálfleikinn. Heimaliðið reyndi hvað það gat undir lokin en allt kom fyrir ekki og óhætt að segja að sigurinn hafi verið óvæntur en afar sanngjarn. Ísland var í fjórða og neðsta styrkleikaflokki mótsins þegar dregið var í riðla.
Næsti leikur íslenska liðsins verður á móti Þýskalandi á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 18.15. Þýskaland og Tékkland, hin liðin í riðlinum mætast síðar í dag.
Mörk Íslands: Lydía Gunnþórsdóttir 6, Ester Amíra Ægisdóttir 4, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 12.
EMU17: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.