- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU17: Möguleiki er á sæti í átta liða úrslitum

Leikmenn u17 ára landsliðs kvenna á EM á síðasta sumri. Nú er leikmenn árinu eldri og margar þeirra verða vafalaust í U18 ára landsliðinu á HM í sumar, reynslunni ríkari. Mynd/HF Montenegro/Stefan Ivanovic
- Auglýsing -

Landslið Íslands í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 17 ára og yngri leikur í dag við Tékkland í síðustu umferð A-riðils Evrópumótsins í Podgorica í Svartfjallalandi. Úrslit leiksins munu skera úr um hvort íslenska liðinu tekst að komast í átta liða úrslit mótsins eða verður á meðal þeirra sem keppa um sæti níu til sextán.


Viðureign Íslands og Tékklands hefst klukkan 18.15. Handbolti.is verður að vanda með texatalýsingu frá leiknum. Einnig verður hægt að fylgjast með endurgjaldslausri útsendingu á ehftv.com.

Eftirvænting utan vallar sem innan

„Við tókum góðan frídag í gær og fórum síðan á æfingu um kvöldið. Allir leikmenn eru heilir og sprækir og tilbúnir í slaginn. Mikil spenna ríkir í herbúðum okkar. Allar eru tilbúnir að leggja sig fullkomlega fram við átökin sem framundan eru í kvöld,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðsins í skilaboðum til handbolta.is um hádegið í dag.

Karen Tinna Demian sjúkraþjálfari, Jóhann Ingi Guðmundsson markvarðaþjálfari, Sigurjón Friðbjörn Björnsson þjálfari og Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari. Mynd/HF Montenegro/Stefan Ivanovic

Leikmenn og þjálfarar lögðu á ráðin eftir æfingu í gær og aftur í morgun. Eftir hádegisverð slaka leikmenn aðeins á og safna kröftum fyrir leikinn mikilvæga, að sögn Rakel Daggar.

Nokkur fjöldi forráðamanna stúlknanna í landsliðinu slóst í för með liðinu til Podgorica. Hópurinn hefur sett hressilegan svip á leikina og látið vel í sér heyra. Víst er að kraftarnir verða ekki sparaðir utan vallar frekar en innan í Verde Complex íþróttahöllinni í Podgorica eftir að flautað verður til leiks klukkan 18.15.

Sigur og tap

Íslensku stúlkurnar unnu Svartfellinga í fyrstu umferð, 20:18, og hafa þar með tvö stig. Í fyrradag tapað íslenska liðið fyrir Þýskalandi, 34:24.

Tékkland rekur lestina í riðlinum án stiga. Tékkar töpuðu fyrir Þýskalandi í fyrstu umferð, 39:29, og fyrir Svartfellingum í fyrradag í annarri umferð, 25:21.

Frídagur á morgun

Frídagur verður á EM á morgun áður en milliriðlakeppni, eitt til átta eða níu til sextán, tekur við á þriðjudag og miðvikudag.

Íslenska landsliðið mætir liðum úr B-riðli á næsta stigi í keppninni, hvorum megin hryggjar sem liðið lendir. Í B-riðli eru Króatía, Sviss, Svíþjóð og Serbía.

Úrslit leikja keppninnar til þessa ásamt stöðu í riðlunum er að finna í greininni hér fyrir neðan.

https://handbolti.is/emu17-dagskra-urslit-og-stadan-ridlakeppni/
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -