„Við tryggðum okkur þennan sigur með mikilli gleði og frábærri liðsheild,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari U17 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is í gærkvöld eftir að íslenska liðið hóf þátttöku á Evrópumótinu í Svartfjallalandi með sigri á heimaliðinu, 20:18, í Verde Complex íþróttahöllinni í Podgorica.
„Við settum okkur það markmið fyrir leikinn að mæta til leiks með mikla baráttu, taka höndum saman og vera sem ein heild á hverju sem gengi. Það gekk svo sannarlega eftir,“ sagði Rakel Dögg ennfremur en íslenska liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. M.a. var íslenska liðið með þriggja marka forskot eftir fyrri hálfleik, 10:7.
EMU17: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni
Frábær vörn
„Vörnin var frábær frá upphafi til enda með Ingunni Maríu [Brynjarsdóttur] í banastuði í markinu. Við gerðum kannski helst til of mörg mistök í sókninni en ástæða þeirra margra er vafalaust að það var stress í okkur við að aðlagast aðstæðum sem fylgja því að taka þátt í stórmóti. Einnig er mikill hiti í höllinni til viðbótar við spennufall þegar á hólminn er komið,“ sagði Rakel Dögg en flestir leikmenn liðsins hafa ekki tekið þátt í stórmóti áður ef undan er skilið Opna Evrópumótið í Gautaborg fyrir ári. Ingunn María er sennilega eina undantekningin en hún var annar markvarða U18 ára landsliðsins á HM fyrir ári.
Erum stolt stelpunum
„Heilt yfir vel leikinn leikur af okkar hálfu. Stelpurnar sýndu mikla skynsemi. Þær eiga mikið hrós skilið hvernig þær tókust á við verkefnið og sýndu frábæran karakter allar sem ein, hvort sem þær voru utan eða innan vallar. Við sem erum í teyminu með liðinu erum mjög stolt af allri framgöngu stelpnanna,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna í handknattleik.
Þýskaland í kvöld
Skammt er stórra högga hjá íslenska liðinu. Næsti leikur verður í kvöld gegn Þýskalandi sem vann Tékkland í gærkvöld, 39:29. Viðureignin við Þýskaland hefst klukkan 18.15 að íslenskum tíma. Handbolti.is verður með textalýsingu frá leiknum. Einnig geta þeir sem aðstöðu hafa til horft á streymi frá leiknum á ehftv.com.
EMU17: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni