- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU17: Stelpurnar ætla að byrja af krafti – mæðgur mættust á æfingu

Frá æfingu U17 ára landsliðsins í Podgorica í morgun. Mynd/SFB
- Auglýsing -

„Stelpurnar fóru á góða æfingu snemma í morgun þar sem farið var yfir nokkur atriði fyrir leikinn sem fer fram að kvöldi að okkar tíma en klukkan 16 á íslenskum tíma,“ sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í morgun. U17 ára landslið Íslands hefur keppni á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi þar sem komin eru saman 16 bestu landslið Evrópu í þessum aldurflokki.


Fyrsta viðureignin verður gegn landsliði Svartfellinga og hefst klukkan 16 eins og kom fram hjá Sigurjóni Friðbirni. Handbolti.is verður með textalýsingu frá leiknum auk þess sem þeir sem tök hafa á geta horft á endurgjaldlausa útsendingu frá viðureigninni á ehftv.com.

EMU17: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá æfingunni í morgun sem fór fram í æfingasal nærri keppnihöllinni í Podgorica. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær í hærri upplausn.

Mikil eftirvænting

„Undirbúningurinn hefur verið að okkar mati góður síðan við komum til Podgorica í fyrradag. Stelpurnar eru staðráðnar í byrja mótið af krafti og skila góðri frammistöðu. Eftirvænting er einnig mikil fyrir að hefja keppni. Núna er loksins komið að þessu sem við höfum verið að búa okkur lengi undir,“ sagði Sigurjón Friðbjörn en undirbúningur hefur staðið yfir vikum saman.

Mæðgurnar Alexandra Ósk Viktorsdóttir t.v. og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, leikreyndasta og markahæsta landsliðskona Íslands í handknattleik. Mynd/HSÍ

Mæðgur mættust á æfingu

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir liðsstjóri U17 ára landsliðsins hljóp í skarðið á æfingu U17 ára landsliðsins þegar þurfti að manna vörn í ákveðnum uppstillingum. Þar komst hún ekki hjá því að dekka dóttur sína, Alexöndra Ósk Viktorsdóttur, sem er á meðal leikmanna U17 ára landsliðsins. Hvorug gaf þumlung eftir.

Hrafnhildur Ósk liðsstjóri og Rakel Dögg þjálfari U17 ára landsliðsins voru í A-landsliðinu sem fór síðast á stórmót, EM í Serbíu 2012. Mikil handknattleiksreynsla á þessari mynd. Mynd/HSÍ

Hrafnhildur Ósk er leikja- og markahæsti leikmaður A-landsliðs kvenna. „Það er mikill auður fólginn í því fyrir okkur að hafa svona kempu með okkur í för,“ sagði Sigurjón Friðbjörn sem þjálfar U17 ára landsliðið ásamt annarri þrautreyndri handknattleikskempu, Rakel Dögg Bragadóttur.

Komnar í leitirnar

Töskurnar fimm sem skiluðu sér ekki með landsliðinu þegar það kom til Podgorica í fyrradag eru annað hvort komnar eða rétt ókomnar. Eftir því næst verður komist standa vonir til að sú síðasta skili sér á hótel landsliðsins í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -