U18 ára landslið Íslands leikur um 9. sætið á Evrópumótinu í handknattleik karla á morgun eftir sigur á Slóvenum, 30:29, í háspennuleik í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Úrslit voru knúin fram í vítakeppni en jafnt var að loknum venjulegum leiktíma. Breki Hrafn Árnason, sem var eini markvörður Íslands í leiknum, var hetjan. Hann varði þrumuskot Slóvena á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma og tvö vítaköst í vítakeppninni, þau tvö fyrstu í keppninni.
Síðar í dag skýrist hvort íslensku piltarnir mætir Færeyingum eða Svartfellingum í leiknum um 9. sætið á morgun. Svartfellingar og Færeyingar eiga eftir að gera upp reikningana sín á milli.
Íslensku piltarnir voru afar öflugir í fyrri hálfleik í dag og voru með fimm marka forksot að hálfleiknum loknum, 14:9. Varnarleikurinn var mjög góður og leikur liðsins allur annar og betri en í fyrri hálfleik í undanförum viðureignum á mótinu.
Eftir að hafa lent sex mörkum undir í upphafi síðari hálfleiks, 15:9, hertu Slóvenar upp hugann. Þeir söxuðu jafnt og þétt á forskotið og tókst að jafna, 22:22, um miðja síðari hálfleik. Eftir það var leikurinn í járnum og sigurinn hæglega getað hafnað hvorum megin sem var.
Í vítakeppninni er ekki á vísan róið. Breki Hrafn gaf tóninn og varð tvö vítaköst og Elmar Erlingsson, Andri Fannar Elísson, Össur Haraldsson og Atli Stein Arnarson sáu um að skora.
Ísak Steinsson, markvörður, og Hans Jörgen Ólafsson eru veikur og gátu ekki tekið þátt í leiknum.
Mörk Íslands: Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Andri Fannar Elísson 4, Andrés Marel Sigurðarson 4, Sæþór Atlason 4, Atli Steinn Arnarson 3, Elmar Erlingsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 2, Össur Haraldsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 14/2.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu sem sjá má hér fyrir neðan.