Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 18 ára og yngri mætir frændum sínum, Færeyingum, í leik um 9. sætið á Evrópumeistaramótinu í Podgorica í Svartfjallalandi á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 15.30 að íslenskum tíma. Þetta verður í fyrsta sinn sem Íslendingar og Færeyingar mætast í kappleik á stórmóti í handknattleik.
Færeyingar unnu öruggan sigur á Svartfellingum, 30:24, í síðari leik krosspilsins um níunda til tólfta sæti mótsins í kvöld. Áður hafði íslenska liðið unnið Slóvena með eins marks mun eftir vítakeppni, 30:29.
Færeyska liðið var með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi viðureignarinna í kvöld. Svartfellingar náðu áhlaupi upp úr miðjum síðari hálfleik en eftir að færeyski markvörðurinn varði í vítakast í stöðunni 25:22 þegar sjö mínútur voru til leiksloka misstu Svartfellingar móðinn, að því er virtist.
Að vanda héldu Óla Mittún engin bönd í leiknum. Hann skoraði 12 mörk í 15 skotum fyrir færeyska liðið og átti margar stoðsendingar. Mittún hefur skorað 69 mörk í sex leikjum í mótinu og lang markahæstur.
Svíþjóð og Spánn í úrslitum
Svíar leika til úrslita á Evrópumótinu. Þeir unnu Ungverja með þriggja marka mun í undanúrslitum í dag, 33:30. Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leikinn og fórst það vel úr hendi. Var þetta þeirra fimmti leikur sem þeir dæma á mótinu.
Spánverjar mæta Svíum í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Spænska landsliðið vann það þýska, 32:29, í kvöld.
Dannir unnu Portúgala í hörku leik, 33:32, og mæta Króötum í leiknum um 5. sætið á sunnudaginn. Króatar höfðu betur gegn Norðmönnum, 29:26. Noregur leikur við Portúgal um 7. sæti, einnig á sunnudaginn.
Serbía og Frakkland leika um 13. sætið á morgun og Pólland og Ítalía eigast við um 15. sætið. Serbar lögðu Pólverja í dag, 33:30. Frakkar, sem hafa valdið miklum vonbrigðum á mótinu með frammistöðu sinni, unnu Ítali með 12 marka mun, 39:27.