Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, mætir landsliði Portúgal í þriðju og síðustu umferð B-riðils Evrópumeistaramótsins í Pitesi í Rúmeníu í dag. Flautað verður til leiks klukkan 14.30. Handbolti.is fylgist með að vanda í textalýsingu. Leiknum verður streymt á EHFtv.com.
Íslenska liðið þarf að ná sigri í leiknum í dag til að halda í von um sæti í átta liða úrslitum eða til þess að eiga í pokahorninu tvö stig þegar keppni um sæti níu til sextán hefst á þriðjudaginn.
EMU19: Dagskrá, úrslit og staðan
Undirbúningur liðsins hélt áfram í morgun að loknum árbít. Fundað var með þjálfurum og farið í stutta gönguferð í nágrenni hótelsins. Allir leikmenn eru klárir í slaginn og tilbúnir til að leggja sig fram eins og í fyrri viðureignum á mótinu.
Hér eru nokkrar myndir frá morgninum sem handbolta.is bárust. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.