Frídagur er frá leikjum á Evrópumóti kvenna í handknattleik, skipað liðum 19 ára og yngri, í Rúmeníu. Riðlakeppni mótsins lauk í gær. Milliriðlakeppnin hefst á morgun. Meðan stund ríkir milli stríða skiptir íslenski hópurinn um liðs- og fararstjóra.
Guðríður Guðjónsdóttir, Gurrý, stjórnarkona í HSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna, hélt heim í dag. Brynja Ingimarsdóttir tók við stjórnartaumunum af Guðríði og verður fararstjóri þangað til íslenska liðið hefur skilað sér heim eftir nærri viku. Brynja var liðsstjóri og fararstjóri U18 ára landsliðs kvenna á HM fyrir ári.
Fyrir dyrum stendur hjá Gurrý ferð um Hornstrandir í góðra vina hópi þegar heim til Íslands verður komið. Gurrý er mikil útivistarkona.
Gyrrý hefur haft í mörg horn að líta m.a. vegna þess að nær allur farangur íslenska landsliðsins varð eftir í Amsterdam þegar millilent var þar það á ferðinni frá Keflavík til Búkarest.
Næsti leikur við Holland
Næsti leikur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu verður gegn Hollendingum á morgun, þriðjudag. Flautað verður til leiks klukkan 10 og vitanlega verður handbolti.is vaktinni með með textalýsingu.
Nánar er hægt að kynna sér leikjadagskrá milliriðlakeppninnar í fréttinni hér fyrir neðan.