- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU19, myndir: Gurrý bjargaði æfingunni með stórinnkaupum

Ágúst Þór Jóhannsson leggur línurnar eftir æfinguna í síðdegis. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Þrátt fyrir að nær því allur farangur íslenska landsliðsins í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, sé ókominn á leikstað landsliðsins, Pitesti í Rúmeníu, þá tókst að vera með góða æfingu í keppnishöllinni síðdegis í dag, að sögn Ágústs Þórs Jóhannssonar þjálfara.

Guðríður Guðjónsdóttir, Gurrý, fararstjóri brá á það ráð að gera stórinnkaup í íþróttavöruverslun bæjarins til þess að klæða allan hópinn upp. Að öðrum kosti hefði ekki verið hægt að æfa því 13 leikmenn af 16 hafa engan annan fatnaði en þann sem þær voru á ferðlaginu að heima. Skór voru reyndar í handfarangri.

Í viðbót við fatnaðinn fengust lánaðir boltar og klístur hjá rúmenska handknattleikssambandinu. Þar með var hægt að taka langþráða æfingu í keppnishöllinni og ná úr sér ferðastrengjunum.

Fá lánaða keppnisbúninga

Fyrsti leikur íslenska liðsins á Evrópumótinu verður síðdegis á morgun við rúmenska landsliðið. Verði búningar íslenska liðsins ekki komnir fyrir leikinn hefur rúmenska handknattleikssambandið boðist til þess að lána íslenska liðinu búninga.

Ekkert að frétta

Eins og handbolti.is sagði frá í morgun voru 23 af 27 töskum íslenska hópsins skildar eftir í Amsterdam í gær. Eins lygilega og það kann að hljóma þá féll flug niður á milli Amsterdam og Búkarest í dag vegna veðurs. „Það er ekkert að frétta af töskunum,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is eftir æfinguna í síðdegis.

Tilkynning sem barst til fararstjóra íslenska landsliðsins í Rúmeníu fyrir stundu.

Vantar sjúkrabúnað og bekk

Fyrir utan skort á æfinga- og keppnisfatnaði, boltum og harpixi, þá er allur sjúkrabúnaður liðsins í töskunum í Amsterdam. Sjúkrabekkurinn er þar með. „Það er bölvað vesen,“ sagði Ágúst Þór.

Látum ekki slá okkur út af laginu

„Æfingin gekk vel. Stelpurnar tóku hressilega á og er spenntar fyrir verkefni morgundagsins. Við látum ekki vesenið slá okkur út af laginu. Framundan er leikur við sterkan andstæðing sem verður á heimavelli. Ég veit að stelpurnar mæta einbeittar í leikinn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is.

Hvað sem öllu líður þá er aðbúnaður liðsins s.s. hótel og matur með ágætum og eins er keppnishöllin prýðileg.

Fyrsti leikur á morgun

Viðureign Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 16.45 á morgun og verður hægt að fylgjast með á EHFtv.com og eins í textalýsingu á handbolti.is.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá æfingunni. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -