- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU19: Stúlkurnar kjöldrógu Serba og tryggðu sér HM-sæti

Leikmenn U19 ára landsliðsins á EM. F.v.: Lilja Ágústsdóttir, Elísa Helga Sigurðardóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir, Valgerður Arnalds, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Ethel Gyða Bjarnasen, Elísa Elíasdóttir, Sonja Lind Sigsteinsdóttir og Embla Steindórsdóttir. Einnig er Tinna Sigurrós Traustadóttir í hópnum. Hún handarbrotnaði á dögunum. Mynd/Mynd/EHF/Mihai Nitoiu
- Auglýsing -

Stúlkurnar í U19 ára landsliðinu í handknattleik burstuðu Serba með 11 marka mun, 33:22, í síðasta leik sínum á Evrópumótinu í Rúmeníu í dag. Með sigrinum tryggði Ísland sér þátttökurétt á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða í Norður Makedóníu á næsta sumri. Serbar sitja eftir með sárt ennið og verða að taka þátt í forkeppni í vetur um eitt laust sæti á HM. Þrettánda sætið er niðurstaða íslenska liðsins eftir þrjá sigurleiki á síðari hluta mótsins.

Íslenska liðið lék sinn allra besta leik í keppninni í dag, þegar mest á reyndi. Varnarleikurinn var stórkostlegur, jafnt 6/0 sem 5/1. Serbar komust strax í vandræði í sóknarleik sínum og unnu sig aldrei út úr þeim vanda. Engin ráð dugðu og lék serbneska liðið sig í vandræði hvað eftir annað. Í kjölfarið fékk íslenska liðið fjöldan allan af hraðaupphlaupum sem nýttust vel.

Segja má að tónninn hafi verið gefinn strax í upphafi. Íslensku stelpurnar komu gríðarlega ákveðnar til leiks og skoruðu fjögur fyrstu mörkin. Serbar tóku leikhlé eftir hálfa fimmtu mínútu, 5:1 undir. Ekkert var gefið eftir af hálfu íslenska liðsins sem lék við hvern sinn fingur.


Sex mörkum munaði á liðunum eftir fyrri hálfleik, 16:10. Munurinn jókst jafnt og þétt í síðari hálfleik og var mestur 12 mörk skömmu fyrir leikslok. Serbneska liðið var fullkomlega ráðþrota meðan íslenska sveitin hljóp fram og aftur leikvöllinn og fagnaði hverju markinu á fætur öðru.

Frábær endir á mótinu sem staðið hefur yfir síðan 6. júlí.

Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 9/4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Embla Steindórsdóttir 6/2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7/1, 27% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 33,3%.

Að vanda fylgdist handbolti.is með leiknum í beinni textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -