Tinna Sigurrós Traustadóttir leikur ekkert meira með U19 ára landsliðinu á Evrópumótinu í Rúmeníu. Hún handarbrotnaði í fyrri hálfleik í viðureign Íslands og Portúgal í dag. Tinna Sigurrós var flutt undir læknishendur í Pitesi þar sem íslenska landsliðið leikur og reyndist niðurstaðan vera þessi, því miður.
„Því miður er raunin þessi og ljóst að Tinna Sigurrós leikur ekki meira með okkur á mótinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is fyrir fáeinum mínútum.
Áfall fyrir okkur og Tinnu
„Þetta er áfall fyrir okkur en ekki síst fyrir Tinnu sem leikið hefur vel á mótinu. Í okkar hóp kemur maður í manns stað. Aðrir leikmenn verða að taka við keflinu af Tinnu sem mun koma sterkari til leiks með Selfossliðinu eftir að hafa jafnað sig af þessum meiðslum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U19 ára landsliðsins sem mætir Hollandi í milliriðlakeppni Evrópumótsins á þriðjudaginn.