„Ég var mjög ánægður með strákana í gær í leiknum við Suður Kóreu. Leikurinn í dag var allt öðruvísi þar sem það er mjög erfitt að halda einbeitingu gegn liði eins og Barein sem leikur mjög langar sóknir. Við vorum í vörn meirihluta leiksins. Mér fannst við hinsvegar alltaf verið með tögl og hagldir í dag,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara 19 ára landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í dag eftir sex marka sigur, 34:28, á Barein sem innsiglaði íslenska liðinu sæti í undanúrslitum í keppni um forsetabikarinn, 17. sætið, á heimsmeistaramótinu í Króatíu.
Reyndi á þolinmæðina
„Mér fannst aldrei líklegt að við misstum leikinn í dag úr höndum okkar. Forskotið var lengst af frá fimm og upp í sjö mörk. Leikurinn reyndi aðallega á þolinmæðina hjá okkur,“ sagði Heimir sem ásamt Einari Jónssyni samstarfsmanni sínum getur farið að huga að næsta leik sem verður við landslið Svía á fimmtudaginn klukkan 18 að íslenskum tíma.
Rútuferð að Adríahafinu
Áður en kemur að leiknum við Svía leggur íslenska liðið land undir fót í Króatíu. Á morgun kveður liðið bæinn Đurđevac og keppnishöllina í Koprivnica í nágrenninu og heldur til Rijeka sem liggur við Kvarnerflóa í Adríahafi. Rijeka er þriðja fjölmennasta borg Króatíu og nefndist Flumen eftir að Rómverjar endurbyggðu borgina fyrir margt löngu. Þriggja tíma rútuferð er frá Đurđevac til Rijeka.
Ekki þurfa íslensku piltarnir að pakka niður föggum sínum fyrr en á morgun vegna þess að þeir verða ekki sóttir fyrr en eftir hádegið.
HMU19: Milliriðlakeppni – neðri og efri hluti – úrslit – staðan
Gott að fá hörkuleik
Sigurliðið í viðureign Svía og Íslendinga leikur við Svartfellinga eða Marokkó um forsetabikarinn á föstudaginn.
„Mér líst vel á að fá alvöru leik á fimmtudaginn. Það er eitthvað sem við þurfum á að halda til þess að bæta okkur og verða betra lið. Úrslitin geta fallið á hvorn veginn sem er. Svíar eru alltaf erfiðir. Þeir, eins og við, lentu í vandræðum í riðlakeppninni, töpuðu stigum sem þeir hefðu þurft að ná til þess að komast í topp sextán,” sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is.
HMU19: Dagskrá og úrslit síðustu leikja mótsins