Enginn af leikjum íslensku liðanna í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik fer fram hér á landi. Þrjú íslensk lið taka þátt, Íslandsmeistarar KA/Þórs, Valur og ÍBV. Öll hafa þau tekið þá ákvörðun að selja heimaleikjaréttinn og leika ytra. Viðureignirnar fara fram frá 15. til 24. okótber.
Íslandsmeistarar KA/Þórs fara til Kósovó og mæta KHF Istogu föstudaginn 15. og laugardaginn 16. október.
Valur verður á ferðinni í næsta nágrenni sömu helgi en kvennalið Vals sækir ZRK Bekament Bukovicka Banja heim til Serbíu laugardaginn 16. og sunnudaginn 17. október.
Helgina á eftir, 23. og 24. október leikur kvennalið ÍBV í Þessalóníku við PAOK frá Grikklandi.
Mikill kostnaður – leikmenn fjárafla
Ákvörðun félaganna snýr fyrst og fremst að fjárhagshliðinni en þátttaka í Evrópukeppni félagsliða er kostnaðarsöm. Ekkert liðanna þriggja getur talist hafa verið heppið með andstæðinga sé eingöngu litið til kostnaðar við ferðalög. Erlingur Kristjánsson formaður kvennaráðs KA/Þórs sagði fyrr í þessum mánuði í samtali við Akureyri.net að það kæmi einfaldlega betur út fjárhagslega að leika báða leikina ytra.
Verulegur hluti kostnaðar er greiddur af leikmönnum sjálfum með afrakstri af ýmiskonar fjáröflunum sem farið er í vegna þátttökunnar.
Sama upp á teningnum
Svipaða sögu er að segja um karlaliðin. Selfoss seldi heimaleikjarétt sinn í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar. Valur gerði slíkt hið sama í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar og fyrir dyrum stendur hjá Haukum að leika tvisvar á Kýpur í næsta mánuði.
FH-ingar ætla að leika heima og heiman gegn Minsk í næsta mánuði þótt allt annað en auðvelt sé að ferðast til Hvíta-Rússlands þessi dægrin.
Valsliðið lék hér heima í síðustu viku gegn Lemgo í annarri umferð Evrópudeildarinnar og er núna komið út til Þýskalands hvar þeir mæta Lemgo annað kvöld. Samkvæmt reglum Handknattleikssambands Evrópu er ekki leyfilegt að selja heimaleikjaréttinn í annarri umferð Evrópudeildarinnar.