Noregur leikur til úrslita við Þýskaland á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á sunnudaginn. Norska landsliðið vann afar öruggan sigur á hollenska landsliðinu í síðari úrslitaleik mótsins í Rotterdam í kvöld, 35:25. Þetta var áttundi sigur norska landsliðsins á mótinu og víst er að allir hafa sigrarnir verið öruggir.
Holland leikur við Frakkland um bronsverðlaunin. Liðin mættust í milliriðlakeppni mótsins og hafði hollenska liðið betur, 26:23.
Hollenska liðið hélt í við það norska fyrsta stundarfjórðunginn í kvöld. Staðan var 8:7 fyrir Noreg eftir 15 mínútur. Þá skoraði norska liðið fjögur mörk í röð og tók afgerandi forskot sem Hollendingar náðu aldrei að ógna. Staðan í hálfleik var 18:14.
Norska liðið gerði síðan út um leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks. Það skoraði sex mörk gegn tveimur og jók síðan muninn í níu mörk, 25:16. Hollendingar náðu að minnka muninn í fjögur mörk, 25:21. Nær komst hollenska liðið og jafnt og þétt slokknaði á vonunum. Norska liðið lék við hvern sinn fingur, jafnt í vörn sem sókn.

Henny Reistad var frábær í leiknum. Hún skoraði 10 mörk í 11 skotum og gaf sex stoðsendingar. Nora Mørk skoraði fimm mörk. Annars var nánast sama hvar var á norska liðið litið. Hver og einn einasti leikmaður skilaði sínu hlutverki frábærlega.
Dione Housheer skoraði sex mörk fyrir hollenska liðið eins og Estavana Polman.
Þjóðverjar leika til úrslita á HM



