Enn og aftur vann norska landsliðið það danska á stórmóti í handknattleik kvenna í kvöld þegar liðin mættust í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í kvennaflokki, 27:24. Þrátt fyrir talsverðar breytingar á norska landsliðinu þá er ekki annað að sjá en Þóri Hergeirssyni sé að takast að púsla saman liði sem er líklegt til þess að gera atlögu að þriðju gullverðlaunum í röð á Evrópumóti.
Engu er líklegra en danska landsliðið hafi ekki trú á að það geti unnið það norska á stórmóti. Norska vörnin og Silja Solberg lögðu grunn að sigrinum í kvöld. Solberg var frábær í markinu og varði 15 skot, 40%, fyrir aftan Kari Brattset Dale og félaga í vörninni sem slógu vopnin úr höndum Dana. Engu máli skipti þótt danska liðið færi í að leika sjö á sex.
Henny Reistad var allt í öllu í sóknarleik Noregs þótt oft hafi skotnýting hennar verið betri en að þessu sinni. Reistad skoraði fimm mörk ásamt Kristine Breistøl. Sú síðarnefnda var með óvenju góða skotnýtingu, geigaði aðeins á einu skoti.
Andrea Hansen skoraði sex mörk fyrir Dani og Emma Friis var næst með fimm mörk.
Ungverjar virðast til alls líklegir á Evrópumótinu. Sigurganga þeirra hélt áfram í kvöld. Ungverska liðið lagði það svartfellska, 26:20, í Debrecen í Ungverjalandi. Ungverjar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16:11, og hleyptu Svartfellingum aldrei upp á dekk í síðari hálfleik.
Katrin Gitta Klujber skoraði sex mörk fyrir Ungverja og Durdina Jaukovic fimm fyrir svartfellska liðið.