Þjóðverjar unnu Færeyinga, 36:26, í fyrstu umferð milliriðils tvö á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Dortmund í gær. Lið beggja þjóða eru með íslenska landsliðinu í riðli á mótinu. Þrátt fyrir tapið þá er ekki öll von úti hjá færeyska landsliðinu um sæti í átta liða úrslitum mótsins. Til þess verða Færeyingar að vinna Serba á morgun og íslenska landsliðið á laugardaginn, auk þess að treysta á hagstæð úrslit annarra leikja.
Þjóðverjar voru öflugri frá upphafi til enda gegn færeyska liðinu í gær að viðstöddum 15 þúsund áhorfendum í Westfalenhallen í Dortmund. Mikill kraftur var í þýska liðinu sem varðist vel og sótti af miklum krafti gegn færeyska landsliðinu sem vakið hefur mikla og verðskuldaða athygli fyrir afar góða frammistöðu á mótinu.
Staðan var 20:14 Þjóðverjum í hag að loknum fyrri hálfleik. Þýska liðið gaf ekkert eftir í síðari hálfleik og vann öruggan sigur. Þjóðverjar hafa unnið allar fjórar viðureignir sínar til þessa og þykir liðið til alls líklegt.


Næstu leikir á morgun
Þjóðverjar mæta Svartfellingum á morgun, fimmtudag, kl. 17. Færeyingar eiga fyrsta leik dagsins gegn Serbum klukkan 14.30. Síðasti leikur á morgun í milliriðli tvö verður á milli Íslendinga og Spánverja.
Pernille Brandenborg var markahæst í færeyska liðinu með 5 mörk. Rannvá Olsen og Jana Mittún skoruðu fjögur mörk hvor.
Línukonan Antje Döll skoraði 6 mörk fyrir þýska liðið og Nina Engel, Lisa Antl, Xenia Smits og Nieke Kühne skoruðu fjögur mörk hver.


