- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ennþá margt sem við þurfum að laga fyrir EM

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það dró af austurríska liðinu þegar á leikinn leið. Á sama tíma fannst mér við ráða afar vel við hraðann í leiknum. Ég náði að rúlla vel á liðinu sem var afar jákvætt. En að sama skapi er alltaf eitthvað um hausverki og verður áfram næstu daga. Það er bara hluti af verkefninu sem við erum í,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is eftir sigur í síðari vináttuleiknum við Austurríki, 37:30, í Linz í kvöld. Fjórir dagar eru í fyrsta leik á Evrópumótinu.

Margt sem þarf að laga

„Við þurfum að laga margt, á því leikur enginn vafi. Þannig er bara staðreynd að þegar farið er á stórmót þá verða menn að leika eins vel og þeir geta til að ná árangri,“ sagði Snorri Steinn og undirstrikaði gamla sögu sem nýja í þeim efnum.

Spurður svaraði Snorri það ekki vera gott hversu mikið hafi borið á sendingamistökum manna á milli og eins hversu mörg opin færi hafi farið forgörðum í leikjunum tveimur.

Ekki gott svo skömmu fyrir mót

„Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni og segja það vera áhyggjuefni en það segir sjálft að það ekki gott að svo mikið beri á þessu skömmu fyrir fyrsta leik á stórmóti. Færanýting og tapaðir boltar verða að vera í lágmarki á stórmóti. Menn fara ekki langt ef mikið er af þeim. Ég er hinsvegar viss um að ég sé með svo marga góða leikmenn til þess að þeir geti skrúfað fyrir þetta,“ sagði Snorri Steinn.

Gott að breyta um vörn

„Þetta varð erfiðara hjá okkur í kvöld en á laugardaginn meðal annars vegna þess að við vorum ekki nógu góðir varnarlega, ekki síst framan af leiknum. Vörn og markvarsla náði heldur ekki saman í upphafi síðari hálfleiks. En það var mjög gott hjá okkur að geta breytt um vörn og fengið hana til að virka,“ sagði Snorri Steinn sem skipti yfir í 5/1 vörn þegar kom fram í miðjan síðari hálfleik og staðan var jöfn, 27:27.

Heildarútlitið er gott

„Mér finnst góður kraftur í liðinu og ég sé ákveðna einurð sem ég vil hafa í mínum liðum. Við höfum ákveðna kosti og ákveðna galla sem ég leyfi mér að lifa með. Þess utan finnst mér margir leikmenn hafa lagt í púkkið í síðustu leikjum og sýnt frammistöðu sem ég er ánægður með. Heildarútlitið á liðinu og leiknum er fín. Við höfum yfir að ráða talsvert mörgum vopnum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þegar hann var spurður að lokum hvað hann væri ánægður með hjá íslenska landsliðinu svo skömmu fyrir stórmót.

EM í handknattleik karla hefst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. 
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14.jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -