- Auglýsing -
- Velta má fyrir sér hversu mikla ályktun er hægt er að draga um stöðu landsliða af leikjum þeirra í undankeppni stórmóta, eins og fóru fram í síðustu viku. Leikmenn ná einni og tveimur æfingum fyrir leiki og nýta meiri tíma til ferðalaga, á tíðum langdreginna og erfiðra.
- Leikmenn eru undir miklu leikjaálagi hjá félagsliðum sínum og verða nánast vera mættir á æfingar eða í kappleiki nánast áður en þeir ná að kasta kveðju á fjölskyldur sínar við heimkomu eftir viku fjarveru vegna landsleikja.
- Félagslið þeirra hafa á stundum takmarkaðan áhuga á landsleikjum enda hugsa þau fyrst og fremst um eigin hag eins og flestir aðrir. Það segir sig e.t.v. sjálft því hvaða vinnuveitandi hefur áhuga á að starfsmenn þeirra væru í burtu á fullum launum í sjálfboðavinnu á öðrum stað nokkra vikur á ári utan sumarleyfistíma?
- Það sést á óvæntum úrslitum margra leikja í undankeppni EM 2026 að skortur á undirbúningi og e.t.v. einbeitingu leikmanna er ekki endilegan bundin við landsliðin og leiki þeirra. Enginn vill koma meiddur til síns félags eftir þessi verkefni og aðrir gefa ekki kost á sér til þess að gera ekki illt verra. Félögin, sem greiðir þeim laun, eru e.t.v. í baráttu á þrennum vígstöðvum á sama tíma, leikur tekur við af leik, tveir til þrír leikir í viku og alltaf eiga menn að gera sitt besta.
- Fyrir nokkrum árum tók ég saman fjölda leikja hjá einum tilteknum landsliðsmanni á eins árs tímbili, 365 dagar. Leikirnir voru á níunda tug á ári, deild, bikar, Evrópukeppni félagsliða, landsliða auk æfingaleikja.
- Eistlendingar, sem steinlágu fyrir íslenska liðinu í tveimur leikjum í undankeppni HM í vor og fengu á sig 50 mörk í öðru leiknum, töpuðu á sunnudaginn með eins marks mun fyrir Slóveníu sem lék um verðlaun á Ólympíuleikunum í sumar.
- Ítalir, sem lengi hafa ekki þótt meðal bestu landsliða Evrópu, unnu Serba og voru nærri því að leggja Spánverja. Jafnvel þýska landsliðið þótti ekki leika vel á útivelli gegn Tyrkjum þrátt fyrir sjö marka sigur. Eins þótti síðari hálfleikur í níu marka sigri á Sviss ekki vera viðunandi af hálfu lærisveina Alfreðs Gíslasonar.
- Ísraelska landsliðið, sem vart hefur fengið stig í undankeppni EM á síðustu árum, voru óheppnir að ná aðeins jafntefli við Pólverja í Póllandi. Hollenska landsliðið, sem gert hefur það gott á nokkrum síðustu stórmótum, náði aðeins jafntefli við Kósovó sem nokkrum dögum áður hafði steinlegið fyrir frændum okkar í færeyska landsliðinu. Á heimavelli mörðu Hollendingar Úkraínumenn eftir að hafa verið lengi vel undir.
- Það er mín skoðun að ekki sé ástæða til þess að draga of miklar ályktanir af stöðu landsliðsins af leikjum í undankeppninni á dögunum, fella dóma og hafa svefnlitlar nætur, hvað þá að það þurfu að slá í brýnu manna á milli, af þessu og hinu. Þegar kemur að stórmóti verður undirbúningur lengri og þar af leiðandi vandaðri. Að þeim leikjum loknum verður frekar hægt að draga ályktanir og fella dóma.
- Íslenska landsliðið vann viðureignir sínar tvær með 11 marka mun í undankeppninni. Það dugði vel.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -