Handknattleiksmaðurinn og Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson er þessa dagana að pakka niður föggum sínum í Skjern á Jótlandi eftir tvö lærdómsrík ár. Í næsta mánuði flytur hann ásamt sambýliskonu og barni frá Danmörku til Melsungen í miðju Þýskalands þar sem hann mun taka upp þráðinn við handknattleik þegar kemur fram í næsta mánuð. Elvar Örn skrifaði snemma árs undir tveggja ára samning við MT Melsungen.
Elvar Örn kom til Skjern eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Selfossi vorið 2019. Þá um vorið var hann einnig valinn leikmaður Olísdeildar og hafði í janúar það ár tekið þátt í sína fyrsta stórmóti með landsliðinu. Í hvaða sporum er Elvar Örn í dag, tveimur árum síðar og reynslunni ríkari eftir veruna hjá Skjern?
„Árin tvö hafa verið afar lærdómsrík með tilliti til árangurs liðsins og míns sjálfs til viðbótar til heimsfaraldurinn,“ sagði Elvar Örn þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið í dag.
Er betri handboltamaður
„Ég hef lært mjög mikið af síðustu tveimur árum og tel mig vera betri handboltamann en ég var. Ekki síst hefur verið lærdómsríkt að leika með mönnum eins og Bjarte Myrhol og Kasper Søndergaard. Þeir hafa kennt mér mikið. Ég er betri handboltamaður en ég var fyrir tveimur árum.
Þess utan hefur maður stykst sem einstaklingur við að flytja að heiman og í annað land þar sem maður hefur orðið að treysta á sjálfan sig, ekki síst eftir að covid brast á. Fyrir vikið hefur maður ekki fengið eins margar heimsóknir frá ættingjum og vinum hingað út til Danmerkur eins og annars hefði verið. Við höfum verið mikið ein hér í Danmörku í ljósi ástandsins. Af því höfum við mikið lært,“ segir Elvar Örn sem býr með Þuríði Guðjónsdóttur. Þau eignuðust sitt fyrsta barn í byrjun desember.
Hlakkar til nýrra ævintýra
„Ég er sjálfstæðari en ég var og ljóst að þrátt fyrir allt hefur undangenginn tími styrkt mann sem persónu,“ segir Selfyssingurinn sem hlakkar til að takast á við ný ævintýri í Þýskalandi ásamt fjölskyldu og nýjum samherjum.
Ekki látið veggina stöðva sig
„Maður hefur lent á nokkrum veggjum á síðustu tveimur árum en hef ekki látið þá stöðva mig heldur unnið mig í gegnum þá.“
Elvar Örn lék sinn síðasta leik með Skjern og tókst að kveðja með sigri sem tryggði liði hans bronsverðlaun í dönsku bikarkeppninni. Elvar skoraði fimm mörk í sjö skotum átti einnig tvær stoðsendingar.
Skjern vann Viktor Gísla Hallgrímsson og samherja í GOG í bronsleiknum, 31:26, eftir að hafa tapaði fyrir Mors-Thy í undanúrslitum á laugardaginn. Sigurinn í gær hafði mikla þýðingu fyrir liðið og ekki síst nokkra leikmenn því fleiri en Elvar Örn kveðja herbúðir Skjern þessa dagana.
Kaddi á jákvæðum nótum
„Það var mjög mikilvægt fyrir okkur alla að vinna leikinn í gær og ljúka tímabilinu með sigri og jákvæðum minningum,“ sagði Elvar Örn en auk hans þá léku hinir þrautreyndu handknattleiksmenn Bjarte Myrhol og Anders Eggert í síðasta sinn fyrir Skjern í bronsleiknum í gær. Báðir ætla að leggja skóna á hilluna. Eggert er hættur en Myrhol kveður sviðið að loknum Ólympíuleikunum í Tókíó eftir að hafa leikið með norska landsliðinu.
Miklar tilfinningar í klefanum
„Það voru miklar tilfinningar í klefanum eftir leikinn enda afar mikilvægt fyrir leikmenn eins og Bjarte og Anders að ljúka ferlinum með sigri. Það skiptir miklu. Vissulega var svekkjandi að komast ekki í úrslitaleikinn en úr því að það tókst ekki þá urðum við að rífa okkur upp í leiknum um bronsið. Okkur lánaðist það og klára tímabilið með alvöru leik þar sem við vorum sannfærandi, ekki síst í síðari hálfleik,“ sagði Elvar Örn.
Úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar fer alla jafna fram í mars en var seinkað í vetur vegna kórónuveirunnar. Lögð var áhersla á að ljúka úrvalsdeildinni og freista þess að bíða með bikarúrslitahelgina með von um að rýmkað hafi verið á samkomutakmörkunum þannig að leika mætti fyrir framan góðan hóp áhorfenda.
Mánaðarbið eftir leikjum
Mánuður var liðinn frá síðasta leik Skjern í deildinni þar til kom að undanúrslitaleiknum í bikarkeppninni á laugardaginn gegn Mors-Thy. Elvar sagði það hafa verið erfitt að bíða í mánuð eftir tveimur leikjum. Fyrst eftir að deildarkeppninni lauk var gefið 10 daga frí frá liðsæfingum þar sem menn sáu um sig sjálfa áður en liðið hittist á nýjan leik.
„Við vorum glaðir og sáttir eftir að punktur var settur aftan við tímabilið í gær með sigri,“ segir Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik og verðandi liðsmaður MT Melsungen í Þýskalandi.
- FH og Valur sameinast um heimavöll á 95 ára afmælisdegi FH
- Dagskráin: Margt um að vera á föstudagskvöldi
- Solberg er óvænt hættur með sænska landsliðið
- Molakaffi: Guðmundur, Arnór, Mørk, Claar
- Einstefna í síðari hálfleik á Ásvöllum