„Þetta verður úrslitaleikur fyrir bæði lið og fyrir okkur verður þetta leikur við heims- og Evrópumeistarana. Þeir hafa undirstrikað að vera með eitt besta lið í heimi. Við verðum að eiga mjög góðan leik,“ segir Elmar Erlingsson fyrirliði 20 ára landsliðs Íslands í samtali við handbolta.is rétt eftir hádegið í dag. Elmar og félagar búa sig undir viðureign við Spánverja á morgun á Evrópumóti 20 ára landsliða. Bæði lið eiga möguleika á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins sem haldið er í Slóveníu.
„Þetta er sannkallaður úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum. Það er mjög spennandi fyrir okkur að komast í leik af þessu tagi,“ segir Elmar ennfremur en hann er með glóðarauga og umbúðir á vinstra kinnbeini eftir högg undir lok leiks Íslands og Portúgal í fyrradag.
Verð að sýna betri frammistöðu
Elmar er einn af kjölfestum leikmanna landsliðsins. Hann segir frammistöðu sína hafa verið upp og ofan sem ekki sé viðunandi. „Ég spilaði til dæmis mjög lélegan leik gegn Austurríki í gær. Ég verð að sýna betri frammistöðu gegn Spáni,“ segir Elmar sem vill ekki skrifa frammistöðu sína gegn Austurríki á bylmingshöggið sem hann ber merki um.
„Þetta er ekki afsökun fyrir lélega frammistöðu í gær. Ég er í góðu lagi,“ segir Elmar Erlingsson handknattleiksmaðurinn efnilegi úr Vestmannaeyjum í samtali við handbolta.is.
Elmar gengur til liðs við þýska handknattleiksliði Nordhorn í sumar. Hann fær viku frí eftir EM áður en undirbúningstímabilið hefst hjá þýska liðinu.
Talsvert lengra viðtal er við Elmar í myndskeiði efst í þessari frétt.
Viðureign Íslands og Spánar á EM 20 ára landsliða karla hefst klukkan 12.20 á morgun. Handbolti.is er í Slóveníu og ætlar að vanda að vanda að fylgjast með í textalýsingu.
EMU20 karla: Leikjadagskrá, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir
Ætlum að sýna okkar rétta andlit gegn Spánverjum