Landsliðskonan í handknattleik, Thea Imani Sturludóttir, flutti sig um set í sumar. Hún fór frá norska úrvalsdeildarliðinu Oppsal yfir til Danmerkur og samdi við Århus United á Jótlandi. Eftir kröftuga byrjun í upphafsleik liðsins í dönsku úrvalsdeildinni hefur Thea verið minna í svðsljósinu upp á síðkastið.
„Ég er ennþá að koma mér inn í liðið. Það hefur tekið aðeins lengri tíma en vanalega,“ sagði Thea þegar handbolti.is hafði samband við hana í morgun.
„Ástæðan er sú meðal annars að ég meiddist í annarri öxlinni á undirbúningstímabilinu og er bara fyrst núna að verða góð,“ sagði Thea Imani ennfremur en Árósarliðið situr í sjötta sæti með sjö stig að loknum sex leikjum.
Nú bíður Thea eftir að fá tækifæri til að sýna hvað í henni býr eftir eftir að hafa jafnað sig að mestu í öxlinni. „Í síðustu leikjum hefur liðsfélagi minn, Line [Ellertsen], staðið sig mjög vel. Meðan svo er verð ég bara að einbeita mér að nýta vel þær mínutur sem ég fæ í leikjum til fulls.“