„Þetta er hreinlega ólýsanlegt. Þvílíkur karakter hjá liðinu að klára þetta því það komu tímapunktar í leiknum þar sem við hefðum getað brotnað við mótlætið. En við gerðum það ekki,“ sagði Bjarki Már Elísson markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í MVM Dome eftir sigurinn, 31:30. Sæti í millriðli eru í höfn.
„Þessi frammistaða sýnir hversu langt við erum komnir. Ég er hrikalega stoltur af liðinu og að vera hluti af því,“ sagði Bjarki Már ennfremur en hann skorað níu mörk í leiknum, tvö úr vítaköstum.
„Við ætluðum okkur frá upphafi að komast í milliriðla en þrátt fyrir tvo sigurleiki þá var ekkert í hendi fyrir leikinn við Ungverja. Við hefðum alveg eins getað verið byrjaðir að huga að heimferð núna. Það er stutt á milli í þessu.“
„Mér líður alltaf vel í sókninni og hef aldrei á tilfinningunni að við getum ekki skorað vegna þess að við erum með leikmenn sem geta endalaust búið eitthvað til. Ég er bara svo hátt uppi að ég veit varla hvað ég er að segja,“ sagði Bjarki Már Elísson skiljanlega í sjöunda himni eftir magnaðan sigur í kvöld.