- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er hreinlega vandræðalegt fyrir okkur

Bjarki Már Elísson tekur vítakast í leiknum í Brno á miðvikudaginn. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson - HSÍ
- Auglýsing -

„Mér finnst eins og það hafi komið okkur á óvart að Tékkar mættu agressívir á móti okkur og að það væri mikil stemning á þeirra heimavelli. Eftir þetta verðum við bara að leita í okkar grunngildi, fyrir hvað viljum við standa sem lið. Sú vinna er hafin,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is spurður um útreiðina sem landsliðið fékk á móti Tékkum í undankeppni EM á síðasta miðvikudag og hvað taki við í síðari leiknum við tékkneska liðið í Laugardalshöll á sunnudaginn.


„Við erum hundsvekktir og viljum gera betur. En því miður erum við í þessum sporum og verðum og ætlum að takast á við það,“ sagði Bjarki Már spurður hvort menn hafi verið yfirspenntir í leiknum. Hann segir sennilega hafi hið gagnstæða verið upp á teningnum, þ.e. að menn hafi verið of afslappaðir.

Ákefðina vantaði

„Við komum alltof slakir í leikinn frekar en yfirspenntir. Ákefðina vantaði á æfingu fyrir leikinn og í aðdragandanum sem varð okkur fjötur um fót þegar Tékkar mættu okkur af fullum krafti og byrjuðu að lemja á okkur og markvörðurinn að verja fyrstu skotin okkar. Þá var eins og menn áttuðu sig fyrst á að leikurinn yrði erfiður. Þegar þar var komið við sögu var of seint að bregðast við. Við verðum að læra af þessu og það hratt,“ sagði Bjarki Már sem var miður sín eftir leikinn á miðvikudaginn sem var hans 100. fyrir landsliðið.

Dauðskammast sín fyrir frammistöðuna

„Maður bara dauðskammaðist sín. Bæði fyrir eigin frammistöðu og síðan hvernig við mættum sem lið. Þetta er ekki í boði, og er hreinlega vandræðalegt fyrir okkur,“ sagði Bjarki Már.

Þá er tími til að endurskoða

„Við viljum helst leika aftur í kvöld til þess að bæta upp fyrir leikinn á miðvikudaginn. Ég veit að við munum laga það á sunnudaginn sem ekki var í lagi síðast. Ef það mótíverar menn ekki að spila landsleik á heimavelli fyrir framan fulla Laugardalshöll þá verður kominn tími til þess að við endurskoðum hvað við erum að gera í þessu sporti,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

Viðureign Íslands og Tékklands hefst í Laugardalshöll á sunnudaginn klukkan 16. Uppselt er á leikinn sem verður sá fyrsti sem fram er í Höllinni síðan í byrjun nóvember 2020.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -