- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Er ótrúlega spenntur fyrir að vinna með Snorra“

Arnór Atlason t.v. Mynd/IHF/ Jozo Cabraja
- Auglýsing -

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir að vinna með Snorra og íslenska landsliðinu,“ sagði Arnór Atlason verðandi aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli í Max Schmeling Halle í Berlín á sunnudaginn þegar Arnór var að ljúka störfum fyrir danska handknattleikssambandið eftir þriggja ára þjálfun 2002 landsliðsins í handknattleik karla.

Framundan er nýtt keppnistímabil og um leið nýjar áskoranir hjá Arnóri. Annars vegar verður hann aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins við hlið Snorra Steins Guðjónssonar og hinsvegar þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Team Tvis Holstebro.

Saknaði stórmótanna

„Ég elska að vera á stórmótum. Um leið og ég hætti að leika með landsliðinu þá saknaði ég mótanna. Mér finnst æðislegt að vera í þjálfun og fást við þau margvíslegu verkefni sem þjálfarar glíma við.

Ég hef haft mikla ánægju af starfi mínu fyrir danska handknattleikssambandið á undanförnum árum. Engu að síður þá kitlaði það mig mikið að komast aftur í A-landsliðsbolta með landsliðinu. Að sjálfsögðu er tilhlökkunin mikil að fá að vinna fyrir hönd Íslands. Ég er afar stoltur og hlakka til að hella mér í það verkefni með Snorra og strákunum í landsliðnu.

Mér þykja það vera forréttindi að fá tækifæri til þess að vera í þjálfarateymi íslenska landsliðsins og vinna með Snorra vini mínum. Við ætlum að leggja okkur fram við þá vinnu sem framundan er,“ segir Arnór sem kvíðir því ekki að þurfa að deila kröftum sínum á milli danska úrvalsdeildarliðsins og íslenska landsliðsins.

Vanur annríki

„Ég hef verið aðstoðarþjálfari hjá Álaborg í fimm ár. Mikill tími hefur farið í þá vinnu enda liðið verið í eldlínunni jafnt í dönsku deildinni og Meistaradeild Evrópu á þessum árum. Auðvitað verður það eitthvað stökk fyrir mig frá því að vera aðstoðarþjálfari yfir í stól aðalþjálfara í dönsku úrvalsdeildinni þar sem mikil pressa er á mönnum og taka við liði sem vill ná langt.“

Tel mig vera tilbúin í verkefnin

„Ég hefði aldrei tekið að mér þjálfun Holstebro nema að vera fullviss um að vera tilbúinn í það verkefni. Sömu sögu er að segja um íslenska landsliðið. Ég er vanur því að vera í tveimur störfum. Það hræðir mig ekki neitt. Ég á sem betur fer mjög skilningsríka og frábæra eiginkonu og fjölskyldu sem vinnur vel saman hvort sem ég er heima eða að heiman,“ sagði Arnór Atlason í samtali við handbolta.is.

Fyrstu leikir í nóvember

Fyrstu verkefni íslenska landsliðsins undir stjórn Snorra Steins og Arnórs verða æfingar og vináttuleikir við Færeyinga í byrjun nóvember. Arnór mætir hinsvegar til starfa hjá Team Tvis Holstebro síðar í þessum mánuði eftir kærkomið sumarleyfi með fjölskyldu sinni hér á landi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -