„Ég er ótrúlega stoltur af Framliðinu eftir þennan leik,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs Fram við handbolta.is kvöld eftir sex marka tap fyrir Haukum í 19. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Safamýri í kvöld. Haukar fengu að hafa fyrir sigrinum og hristu ekki Framara af sér fyrr en á síðustu tíu mínútunum.
„Það er ótrúlega erfitt að verjast Haukum þegar skytturnar þeirra hitta eins vel og þær gerðu að þessu sinni. Ef farið er út í skytturnar þá losnar um línumennina og ef ekki er farið út í skytturnar þá hitta þær markið í flestum tilfellum,“ sagði Sebastian sem hrósaði sínum leikmönnum fyrir að hafa veitt Haukum góða keppni og leika frábæran sóknarleik.
„Ég vona bara að mínir leikmenn missi ekki sjónar á því hversu nálægt markmiðinu þeir eru“
„Þetta er munurinn á liðunum því við töpuðum líka með sex marka mun fyrir Haukum í fyrri leiknum þrátt fyrir að leika vel. Allir viðureignir okkar í vetur hafa verið leikir. Hvað sem hver segir og hvað stendur á stöðutöflunni. Við erum á pari við öll lið deildarinnar og erum að nálgast þann stað sem Fram vill vera á. Ég vona bara að mínir leikmenn missi ekki sjónar á því hversu nálægt markmiðinu þeir eru. Við stöndum vel að vígi í innbyrðis leikjum við öll lið deildarinnar. Við vorum að máta okkur við það besta og erum mjög nærri því. Það tek ég út úr þessum leik,“ sagði Sebastian sem hættir þjálfun Fram við lok keppnistímabilsins í vor.
„Við erum með breidd en það tekur á að verjast og sækja á Haukana þeir eru massívir. En við létum þá hafa fyrir sigrinum og af því er ég stoltur þegar upp er staðið,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Safamýri í kvöld sem markaði lokin á 19. umferð Olísdeildar karla.