- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er viss um að ég er að taka hárrétt skref á ferlinum

Teitur Örn Einarsson kemur til Kölnar í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson hefur samið við Vfl Gummersbach til næstu tveggja ára frá og með næsta sumri. Gummersbach sagði frá komu íslensku stórskyttunnar fyrir stundu en mikil tilhlökkun er fyrir samstarfinu Við Teit Örn sem mun leika undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar sem þjálfað hefur Gummersbach með framúrskarandi árangri frá sumrinu 2020.

Hentar mínum leikstíl

„Fyrst og fremst þá ákvað ég að velja Gummersbach vegna þess að liðið leikur hraðan handbolta sem hentar mjög vel mínum leikstíl. Mér finnst þetta bara líta hrikalega vel út,“ sagði Teitur Örn í samtali við handbolta.is.

Það sem Guðjón Valur hafði fram að færa við mig hljómaði fullkomið fyrir mig á þessum tímapunkti á ferlinum

Guðjón Valur hafði sitt að segja

„Einnig hafði það mikið að segja að Guðjón Valur þjálfar liðið. Ég ber mikla virðingu fyrir honum sem leikmanni, þjálfara og manneskju. Hann er að vinna hrikalega spennandi starf hjá Gummersbach. Þar af leiðandi er mjög spennandi að komast undir hans stjórn,“ sagði Teitur Örn ennfremur en hann mun vitanlega ljúka leiktíðinni með Flensburg sem hann gekk til liðs við haustið 2021 að lokinni þriggja ára veru hjá IFK Kristianstad.

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach. Mynd/Nastasja Kleinjung / VfL Gummersbach

Fleiri kostir voru á borðinu

Teitur Örn hafði úr fleiri tilboðum að velja, bæði frá þýskum og dönskum félagsliðum en að loknum fannst honum Gummersbach áhugaverðast, ekki síst vegna leikstílsins sem er byggður á miklum hraða. Einnig standa vonir til þess að hlutverk Teits Arnar hjá liðinu verði stórt en skipst hafa skin og skúrir í þeim efnum hjá Flensburg.

Ég vonast til þess að komast í stærra hlutverk eftir að hafa verið svolítið mikið vararmaður síðustu tvö ár og tækifærin þar af leiðandi verið upp ofan.

Kem inn með reynslu

„Örvhenta skyttan sem verður með mér er þremur árum yngri og hefur verið skemur í atvinnumennsku en ég. Ég kem inn með meiri reynslu. Ég hef jafnt og þétt styrkst á síðustu árum, bæði sem varnar- og sóknarmaður. Á þessu tímabili hef ég meðal annars verið talsvert í varnarskiptingum hjá Flensburg. Ég tel mig vera orðinn góðan varnarmann eftir að hafa einbeitt mér svolítið að því síðasta árið. Sú staðreynd styrkir vonandi stöðu mína um leið gagnvart landsliðinu,“ sagði Teitur Örn sem er ekki inni í 20 manna æfingahópi Snorra Steins Guðjónssonar fyrir Evrópumótið í næsta mánuði.

Teitur Örn Einarsson leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg

Hljómaði fullkomið fyrir mig

Teitur Örn segist hafa verið í talsverðu sambandi við Guðjón Val áður en hann gerði upp hug sinn. „Það sem Guðjón Valur hafði fram að færa við mig hljómaði fullkomið fyrir mig á þessum tímapunkti á ferlinum,“ sagði hinn 25 ára gamli Selfyssingur.
Guðjón Valur hefur unnið frábært verk hjá Gummersbach. Hann hefur byggt liðið hægt og bítandi upp úr 2. deild og upp í það sem það er í dag og ætlar sér lengra.

Heimsklassa þjálfari

„Guðjón Valur hefur sýnt að hann er heimsklassa þjálfari, eins og hann var sem leikmaður,“ sagði Teitur Örn og benti á að það væri engin tilviljun að Guðjón Valur hafi verið valinn þjálfari ársins í Þýskaland á síðasta keppnistímabili.

Guðjón Valur hefur sýnt að hann er heimsklassa þjálfari, eins og hann var sem leikmaður

„Ég er viss um að samningurinn við Gummersbach er hárrétt skref á ferlinum. Ég vonast til þess að komast í stærra hlutverk eftir að hafa verið svolítið mikið varamaður síðustu tvö ár og tækifærin þar af leiðandi verið upp og ofan. Auk þess þá horfi ég til þess með opnum huga að prófa eitthvað nýtt og fá um leið stærra hlutverk innan liðs og sýna um leið hvað í mér býr,“ sagði Teitur Örn Einarsson handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is.

Meðal Íslendinga sem eru, eða hafa verið, hjá Gummersbach
Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari og leikmaður.
Alfreð Gíslason, þjálfari.
Kristján Arason, leikmaður.
Róbert Gunnarsson, leikmaður.
Elliði Snær Viðarsson, leikmaður.
Hákon Daði Styrmisson, leikmaður.
Júlíus Jónasson, leikmaður.
Sverrir Andreas Jakobsson, leikmaður.
Guðlaugur Arnarsson, leikmaður.
Óðinn Þór Ríkharðsson leikmaður. (var í láni í desember 2021).
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -