Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik segir það hafa verið góða tilbreytingu að ganga til liðs við EH Aalborg í Danmörku eftir fjögurra ára veru hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad. Hollt sé að takast á við nýjar áskoranir með öðrum liðsfélögum, undir stjórn annars þjálfara og í öðru landi.
Er mjög ánægð
„Ég er í mikið stærra hlutverki en ég var í hjá Kristianstad og kann mjög vel við það fyrir utan sem þjálfarinn hefur aðrar áherslur til viðbótar við að Álaborg er mikið stærri bær eða borg en Kristianstad. Ég er mjög ánægð,“ sagði Andrea þegar handbolti.is hitti hana í örstutta stund fyrir æfingu kvennalandsliðsins á dögunum.
Andrea er 24 ára gömul. Hún lék með Fjölni þangað til hún flutti til Svíþjóðar 2018 og gekk til liðs við Kristianstad Handboll. Andrea lék með Kristianstad Handboll í fjögur ár, þar af var hún frá keppni í eitt ár vegna krossbandaslits. Alls hefur Andrea leikið 31 A-landsleik og skorað í þeim 30 mörk. Þá var hún einnig í U20 og U18 ára landsliðunum á sínum tíma. Andrea samdi í vor til tveggja ára við danska 1. deildarliðið EH Aalborg sem Sandra Erlingsdóttir lék með með frá 2020 til 2022.
Stærra hlutverk og meira sjálfstraust
„Ég er þeirra skoðunar að það hafi verið rétt skref að breyta til. Um þessar mundir er ég í betra formi en nokkru sinni áður. Um leið er hugurinn einnig á réttum stað því hann fylgir með þegar maður er að finna sig. Sjálfstraustið hefur aukist um leið og hlutverk mitt og ábyrgð hefur vaxið,“ sagði Andrea sem hefur byr í seglum um þessar mundir og verður spennandi að sjá til hennar í landsleikjum við Ísrael í forkeppni HM hér á landi í byrjun nóvember.
Alls ekki skref til baka
Andrea segir að bestu liðin í dönsku 1. deildinni, þar á meðal er EH Aalborg, standi liðunum sem eru um miðbik sænsku úrvalsdeildarinnar á sporði. Það hafi hún m.a. fengið sannreynt með þátttöku í æfingaleikjum á milli liðanna í sumar áður en tímabilið hófst. „Danska fyrsta deildin er ekki slök deild, í henni er nokkuð góð lið og því tel ég mig alls ekki hafa tekið skref aftur á bak með því að fara frá liði sem var í neðri hluta sænsku úrvalsdeildarinnar yfir í fyrstu deildina í Danmörku,“ segir Andrea ákveðin.
Hörkukeppni framundan
EH Aalborg hefur unnið tvo leiki og tapað einum til þessa í dönsku deildinni sem hófst ekki fyrr en 10. september og fór í hlé vegna landsleikjavikunnar í síðustu viku.
„Við ætlum okkur beint upp í úrvalsdeildina en erum ekki einar um vera með það markmið. Tvö til þrjú lið eru á svipuðu róli og við svo keppnin er hörð fyrir utan að ekki má vanmeta liðin sem eru fyrir neðan okkur. Þau þarf líka að vinna. Ég er mjög jákvæð og spennt fyrir tímabilinu sem er rétt byrjað,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik og leikmaður EH Aalborg.