Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í KIF Kolding töpuðu öðru sinni í kvöld í sínum riðli átta liða úrslitum um danska meistaratitilinn er þeir sóttu Bjerringbro/Silkeborg heim, 37:29. Kolding-liðið átti á brattann að sækja í síðari hálfleik gegn særðu liði Bjerringbro/Silkeborg sem tapaði óvænt í fyrstu umferð fyrir SönderjyskE.
Kolding var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16. Ágúst Elí stóð í marki í síðari hluta leiksins og varði eitt skot. Hann var ekki öfundsverður af hlutverki sínu vegna þess að vörn liðsins var ekki eins og best var á kosið. Tom Winkler, hinn markvörður Kolding, náði heldur ekki að sýna sínar allra bestu hliðar.
Alexander Morsten skoraði sjö mörk fyrir Kolding. Jakob Lassen skoraði 10 mörk í 11 tilraunum fyrir Bjerringbro/Silkeborg.
Staðan í riðlinum:
GOG 4(1), Bjerringbro/Silkeborg 3(2), SönderjyskE 2(1), KIF Kolding 0(2).
GOG með tvö stig í forgjöf og Bjerringbro/Silkeborg eitt stig.
GOG og SönderjyskE mætast á laugardaginn. Næsti leikur hjá Ágústi og félögum verður eftir viku gegn SönderjyskE í Kolding.