- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erfitt að vinna leiki án þess að fá markvörslu

Díana Dögg Magnúsdóttir. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Mjög góður sóknarleikur og 31 mark dugði Díönu Dögg Magnúsdóttur og samherjum hennar í BSV Sachsen Zwickau ekki í kvöld gegn Metzingen á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Gestirnir skoruðu 34 mörk og fóru með stigin tvö í farteskinu heim til suðurhluta Þýskalands. BSV Sachsen Zwickau rekur þar með áfram lestina í deildinni, á fimm leiki eftir, er stigi á eftir Buchholz 08-Rosengarten sem á þrjá leiki eftir óleikna.


„Það er erfitt að vinna leiki án þess að fá markvörslu,” sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld eftir leikinn. „Eins áttum við of marga sendingafeila í byrjun síðari hálfleiks,” sagði Díana Dögg ennfremur.

Díana Dögg stóð fyrir sínu eins og endranær, skoraði átta mörk, átti þrjár stoðsendingar, skapaði fjögur marktækifæri, stal boltanum einu sinni og vann einn leikmann Metzingen af leikvelli. Sjálf mátti Díana Dögg bíta í það súra epli að vera í tvígang vísað af leikvelli.


Metzingen situr í fimmta sæti deildarinnar en þess má geta að önnur Eyjakona, Sandra Erlingsdóttir gengur til liðs við Metzingen í sumar.


SG BBM Bietigheim varð í kvöld þýskur meistari í handknattleik. SG BBM Bietigheim vann Oldenburg, 33:21, og hefur þar með unnið alla 24 leiki sína í deildinni og er með 12 stiga forskot á ríkjandi meistara, Borussia Dortmund.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -