ÍBV átti magnaðan endasprett gegn Haukum á heimavelli í dag og unnu góðan sigur, 29:27, í Olísdeild kvenna í handknattleik. Tuttugu mínútum fyrir leikslok benti margt til þess að Haukar færu með bæði stigin í farteskinu heim til sín en annað kom á daginn þegar gengið var frá borði.
Eftir jafna stöðu í hálfleik, 12:12, komust Haukar á skrið á upphafsmínútum þess síðari og voru mest með fimm marka forskot, 21:16, og héldu þeim mun um skeið. ÍBV-liðið neitaði að leggja árar í bát og það borgaði sig.
Leikmönnum tókst að snúa stöðunni sér í vil. Ekki munaði minnst um að Erla Rós Sigmarsdóttir kom í markið og varði af miklum móð.
Þegar síðari hálfleikur var rétt liðlega hálfnaður þá komst ÍBV yfir, 23:22, og síðar munaði þremur mörkum. Forskotið náði Haukaliðið aldrei að vinna upp og varð að játa sig sigrað.
Haukar eru í þriðja sæti með 13 stig eftir 12 leiki. ÍBV situr í sjötta sæti með 8 stig að loknum níu leikjum og á liðið nokkuð af leikjum til góða á önnur lið deildarinnar.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 9, Marija Jovanovic 6/2, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Lina Cardell 4, Bríet Ómarsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 1, Karolina Olszowz 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 31,3% – Erla Rós Sigmarsdóttir 6, 54,5%.
Mörk Hauka: Sara Odden 8, Ásta Björt Júlíusdóttir 5/4, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Birta Linda Jóhannsdóttir 3, Karen Helga Díönudóttir 2, Elín Klara Þorkelsdóttir 2, Rakel Sigurðardóttir 2, Berta Rut Harðardottir 2.
Varin skot: Annika Friðheim Petersen 6, 27,3% – Margrét Einarsdóttir 6, 33,3%.
Stöðuna og næstu leiki Olísdeild kvenna má sjá hér.