- Auglýsing -
Erlingur Richardsson landsliðsþjálfari Hollands í handknattleik karla greindist með covid19 í morgun í skyndiprófi sem tekið var af leikmönnum og þjálfurum leikmanna hollenska landsliðsins.
Erlingur er þar með kominn í einangrun og stýrir ekki hollenska landsliðinu í dag þegar það mætir Svartfellingum í milliriðlakeppni Evrópumótsins. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.
Greint var frá þessu á heimasíðu hollenska handknattleikssambandsins í hádeginu. Þar segir ennfremur að Gerrie Eijlers markvarðaþjálfari landsliðsins hafi einnig reynst vera smitaður í morgun.
Edwin Kippers, aðstoðarþjálfari hollenska landsliðsins, hleypur í skarðið fyrir Erling í leiknum í dag og þarf væntanlega að stýra liðinu í fleiri leikjum í mótinu ef að líkum lætur.
Auk Erlings og Eijlers eru leikmennirnir Rutger ten Velde, Jeffrey Boomhouwer, Robin Schoenaker, Iso Sluijters, Dennis Schellekens og Bart Ravensbergen einnig í einangrun. Sá síðarnefndi er aðalmarkvörður hollenska landsliðsins.
- Auglýsing -