„Ég tel að við eigum möguleika gegn HC DAC Dunajská en því er ekki að leyna að um er að ræða vel mannað atvinnumannalið sem við erum að fara mæta. Báðir leikirnir verða úti sem gerir róðurinn þyngri. En við erum hvergi bangin,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari bikarmeistara Vals við handbolta.is.
Ágúst mætti með sveit sína til Dunajská í Slóvakíu á fimmtudagskvöldið þar sem fyrir dyrum standa tvær viðureignir við HC DAC Dunajská í kvöld og á morgun í 1. umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik.
Viljum vera í möguleika fyrir seinni leikinn
„Vonandi getum við náð góðum úrslitum,“ sagði Ágúst ennfremur og undirstrikar að Valsliðið einbeiti sér alfarið að fyrri leiknum.
„Markmiðið er að staðan verði þannig eftir fyrri leikinn í kvöld að við eigum ennþá möguleika á að komast áfram þegar síðari leikurinn hefst á morgun,“ sagði Ágúst Þór en leikirnir hefjast klukkan 18 báða daga og verður eftir megni reynt að fylgast með framvindu þeirra á handbolti.is.
Óvissa um Lilju
„Við nýtttum gærdaginn til þess að funda og æfa í keppnishöllinni. Það er bara góður taktur í liðinu. Að vísu meiddist Lilja [Ágústsdóttir] á æfingu og óvíst er hvort hún verður með okkur í dag. Staðan verður tekin á henni þegar nær dregur leiknum,“ sagði Ágúst og bætti við.
Koma víða að
„Aðrar eru ferskar og spenntar að takast á við þetta sterka lið HC DAC Dunajská sem er afar vel skipað. Meðal annars eru innan raða þess fimm landsliðskonur Slóvakíu, fjórir Ungverjar, ein frá Tékklandi auk línumanns frá Brasilíu sem er stór og sterk og getur verið mjög erfið viðureignar. Við erum á leiðinni í hörkuleiki. Það er okkur ljóst,“ sagði Ágúst Þór.
HC DAC Dunajská komst í átta liða úrslit Evrópubikarkeppninnar á síðasta keppnistímabili en féll úr leik eftir tvær viðureignir við ZRK Bekament Bukovicka Banja frá Serbíu. ZRK Bekament Bukovicka Banja vann naumlega í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar ytra fyrir um ári.
Glöggur miðjumaður og öflugur línumaður
„Það sem ég hef séð af liði HC DAC Dunajská er ljóst að leikin verður mjög sterk agressiv 6/0 vörn gegn okkur. Leikmenn eru fremur hávaxnir og líkamlega sterkar. Miðjumaðurinn er öflugur auk línumannsins sem leikur stórt hlutverk,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson hinn þrautreyndi þjálfari kvennaliðs Vals þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið.