„Ég er heilt yfir mjög ánægður með frammistöðu liðsins. Á köflum lékum við vörnina alveg glimrandi vel þótt alltaf sé eitthvað sem vinna má betur í. Okkar markmið er m.a. að vinna í vörninni sem snýr meðal annars að því að koma framar á völlinn. Sé tekið mið af leiknum í kvöld samanborið við leikina við Ísrael í byrjun nóvember þá virðist mér sem við séum að bæta okkur og ráða betur við það sem við erum að gera,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í samtali við handbolta.is eftir öruggan sigur íslenska landsliðsins á B-landsliði Noregs á Ásvöllum í gær, 31:26.
Arnar sagði norskra landsliðið vera töluvert betra en það ísraelska sem íslenska landsliðið mætti í forkeppni HM í upphafi nóvember.
Annar leikur á morgun
„Við fengum fleiri færi á okkur þegar leið á síðari hálfleik þegar við vorum í fimm einn vörninni,“ sagði Arnar sem vonast til þess að tekin verði fleiri skref til framfara í síðari leiknum við norska landsliðið sem fram fer á Ásvöllum á morgun, laugardag, og hefst klukkan 16.
Erum á ákveðinni vegferð
„Við erum á ákveðinni vegferð og þurfum að nálgast öll verkefni af hæfilegri auðmýkt en setja um leið kraft í þau þannig að við séum að bæta okkar leik. Við erum að því um þessar mundir. Skrefin sem við erum að taka eru fram á við. Meðan svo er þá er ég sáttur. Það vil ég aftur sjá á laugardaginn, fleiri skref í rétta átt. Þá verðum við að mæta aftur af fullum krafti og leggja sömu vinnuna í vörnina, vera óhrædd við að keyra fram völlinn og leika um leið af skipulagi og aga í uppstilltum sókn. Ef við gerum þá verð ég sáttur,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Síðari leikur Íslands og Noregs fer fram á Ásvöllum á morgun, laugardag, og hefst klukkan 16. Klettur býður landsmönnum einnig á leikinn á morgu og aðgangur þar með án endurgjalds.