0
„Það ríkir eftirvænting hjá okkur fyrir mótinu. Við höfum haft það gott við góðar aðstæður. Framundan er lokaundirbúningur. Mótið er loksins að hefjast,“ segir Sunna Jónsdóttir fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is áður en landsliðið fór inn í keppnissalinn í Ólympíuhöllinni til síðustu æfingar fyrir viðureignina gegn Hollendingum á morgun á Evrópumótinu í handknattleik. Leikurinn hefst klukkan 17.
„Það má með sanni segja að þær eru sterkar enda verið á toppnum í mörg ár,“ svaraði Sunna spurð um hollenska landsliðið sem verður fyrsti andstæðingur íslenska liðsins á mótinu. „Framundan er ótrúlega spennandi viðureign. Eins og áður erum við fyrst og fremst að einbeita okkur að eigin leik. Fyrst og síðast snýst þetta um okkur sjálfar,“ segir Sunna.
Umgjörðin batnar
Sunna ásamt Rut Arnfjörð Jónsdóttur eru þær einu sem eru í landsliðinu núna og voru með þegar Ísland tók fyrst þátt í EM fyrir 14 árum í Danmörku. „Ég er afar stolt af sjálfri mér og liðinu að vera í þessum sporum í dag. Umgjörðin á öllum sviðum er meiri og betri en fyrir fjórtán árum,“ segir Sunna sem miðlar yngri og óreyndari leikmönnum af reynslu sinni.
Ná fyrsta stiginu
„Ég nýt þess að vera hérna með þessum góða hópi og hjálpa stelpunum. Við höfum fulla trú á okkur eftir mikla vinnu undanfarin ár að ná að minnsta kosti í fyrsta stig okkar fyrir EM. Þetta er hluti af vegferðinni. Við erum ekki komnar á endastöð með þessu móti. Það er bara áfram gakk,“ segir Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik.
Lengra viðtal er við Sunnu í myndskeiði efst í þessari frétt.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Sjá einnig: EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða.