- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum í vegferð og vitum hvað við viljum

Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs á hliðarlínunni í einum leikja Þórs á keppnistímabilinu. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net
- Auglýsing -

„Leikurinn spilaðist öðruvísi en ég gerði ráð fyrir. HK U er með flott lið en mætti með þunnan hóp að þessu sinni, annað en þeir gerðu síðast þegar við mættum þeim á þeirra heimavelli,“ sagði Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs Akureyri við handbolta.is í gær eftir að lið hans vann ungmennalið HK, 34:21, í 14. umferð Grill 66-deildar karla og komst þar með í efsta sæti deildarinnar þegar aðeins er litið til þeirra sem geta farið upp í Olísdeildina í vor.

Horfi til liðsheildarinnar

„Ég er sáttur við liðið mitt að þessu sinni. Við gerðum þetta fagmannlega og mér tókst að rúlla vel á liðinu og margir skiluðu sínu. Fyrst og fremst liðsheildin sem ég er að horfa á myndast,“ sagði Halldór Örn eftir sigurinn í leiknum sem fram fór í Höllinni á Akureyri.

Auk Þórs þá eru ÍR, Fjölnir og Hörður í kapphlaupi um efsta sætið en liðið sem verður efst kemst hjá því að taka þátt í umspili um sæti í Olísdeildinni.

Okkur langar upp

„Baráttan framundan er bara eins og hún er. Okkur langar upp og hnikum ekki frá þeirri staðreynd en tökum bara einn leik í einu. Næst mætum við Herði fyrir vestan sem mun reyna mikið á. Við þurfum svolítið að einblína á okkur sjálfa næstu vikurnar. Við erum í vegferð og vitum hvað við viljum,“ sagði Halldór Örn sem tók við þjálfun Þórsliðsins á nýjan leik fyrir yfirstandi leiktíð.

Deildin er flott í ár

„Deildin er bara flott í ár. Hún er sterkari núna en síðast þegar ég var við stjórn á liðinu. Núna eru allir að vinna alla og U-liðin eru sterk. Mér hefur fundist vanta mikið upp á hjá okkur undanfarið. Við getum bætt okkur heilan helling og þó sigur hafi verið í dag þá er nýr dagur á morgun og næsta verkefni,“ sagði Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs Akureyri við handbolta.is í gær.

Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -