„Við erum með hörkugott lið, höfum margir verið saman í liðinu um nokkuð langt skeið og auk þess með frábært teymi með okkur. Við gerum líkar væntingar til okkar,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir helgina áður en landsliðið hélt af landi brott. Hann var spurður hvort væntingar sem gerðar eru til liðsins röskuðu mjög ró hans.
Hugum að okkar gildum
Ýmir Örn, sem er leikmaður Rhein-Neckar Löwen sem er í hópi efstu liða í þýsku 1. deildinni, er á leiðinni á sitt sjötta stórmót með landsliðinu, þar af þriðja heimsmeistaramótið. „Það er mikil þéttleiki í hópnum. Ég tel okkur vera klára í mótið þótt einhverja strengi eigi enn eftir að stilla. Við verðum að huga að okkar gildum sem er meðal annars að leika góða vörn og hjálpa markvörðum okkar, hlaupa síðan fram og keyra á andstæðingana,“ sagði Ýmir Örn ennfremur en hann hefur verið helsta kjölfesta varnarleiksins síðustu árin enda einn öflugasti varnarmaður þýsku 1. deildarinnar.
Gömul saga og ný
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, nefndi það á blaðamannafundi eftir æfingar í síðustu viku að það tæki sinn tíma að fínstilla varnarleikinn, eitthvað sem er gömul saga og ný. Ýmir Örn sagði að sannarlega væri það alltaf ákveðið púsluspil að stilla saman strengina í vörninni. Ekki væri það síst vegna þess hversu mismunandi andstæðingarnir væru. „Sum liðin leggja upp úr því að skora mikið af níu og tíu metrum meðan Suður Kóreumenn eru til dæmis minni og sneggri og leggja meira upp því að ná sex metra færum. Það er okkar að finna jafnvægið sem þarf í varnarleikinn, gera það sem þarf,“ sagði Ýmir Örn.
Toppurinn að leika fyrir landsliðið
Ýmir Örn sagði ennfremur að þótt pressan sé mikil á leikmenn úti hjá sínum félagsliðum þá væri hún meiri eða öðruvísi þegar kemur að leikjum landsliðsins. „Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Eitthvað tengist það vafalaust stoltinu yfir að fá að leika fyrir Ísland. Það er toppurinn fyrir okkur. Við komumst ekki lengra en það. Allir vilja leika fyrir landsliðið. Ef við náum góðum úrslitum þá er bara gaman.“
Bláa hafið í stúkunni
Gríðarlegur fjöldi Íslendinga fylgir landsliðinu út til Svíþjóðar á heimsmeistaramótið. Ýmir Örn segir mikla eftirvæntingu ríkja að sjá bláklætt mannhaf í keppnishöllinni í Kristianstad fyrir fyrsta leikinn á fimmtudagskvöldið gegn Portúgal.
„Stemningin verður mikil og hún skilar sér inn í hópinn hjá okkur. Það er alveg ljóst. Á EM í fyrra voru mjög margir sem fylgdu okkur til Búdapest. Vera þeirra skilaði sér inn til okkar. Nú verða talsvert fleiri Íslendingar á leikjunum í minni höll og þar af leiðandi verða meiri læti. Þetta er frábært.
Við erum glaðir og þakklátir fyrir að fólk fylgi okkur eftir á stórmót. Það gefur okkur auka orku að sjá bláa hafið í stúkunni,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðamaður í handknattleik í samtali við handbolta.is áður en landsliðið fór af landi brott á fyrir nýliðna helgi.
D-riðill (Kristianstad) 12. janúar: Ungverjaland – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Portúgal, kl. 19.30. 14. janúar: Portúgal – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30. 16. janúar: Suður Kórea – Ísland, kl. 17. Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.
Leikjadagskrá HM – smellið hér.