„Þetta var virkilega góður sigur,“ sagði Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar í viðtali við handbolta.is í kvöld eftir öruggan níu marka sigur Aftureldingar á KA, 36:27, að Varmá. Aftureldingarliðið er þar með áfram í efsta sæti með fullt hús stiga, nú að loknum þremur viðureignum. KA er með tvö stig, einn sigur og tvö töp. KA-menn voru í mestu vandræðum, jafnt í vörn sem sókn allan leikinn að Varmá.
„Ég var ánægður með hvernig við komum inn í leikinn í byrjun. Þannig náðum við góðum tökum á leiknum. Varnarlega sex á móti sex vorum við góðir. Þegar á leið fyrri hálfleik þá komu ferskir menn inn af bekknum sem skiluðu sínu þannig að við vorum með góða stöðu í hálfleik,“ sagði Stefán ennfremur.
Staðan í hálfleik var 18:11 Aftureldingu í vil. KA tókst að minnka muninn í fjögur mörk, 19:15, snemma í síðari hálfleik. Nær komust norðanmenn ekki. Um miðjan síðari hálfleik var forskot Aftureldingar 10 mörk og úrslitin virtust ráðin.
„Við náðum upp góðri ákefð snemma í síðari hálfleik og þá jókst munurinn á ný,“ sagði Stefán sem hafði nýtt 13 af 16 leikmönnum strax í fyrri hálfleik. Áður en yfirlauk höfðu allir fengið að láta ljós sitt skína. Stefán segir breiddina vera góða í leikmannahópi sínum.
„Fyrir vikið þá náum við halda dampi frá byrjun til enda. Við erum með marga góða leikmenn og treystum þeim,“ sagði Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar.
Lengra viðtal við Stefán er myndskeiði hér fyrir neðan.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8/2, Ihor Kopyshynskyi 6, Oscar Sven Leithoff Lykke 5, Ágúst Ingi Óskarsson 4, Kristján Ottó Hjálmsson 4, Harri Halldórsson 3, Sveinur Olafsson 2, Stefán Magni Hjartarson 1, Brynjar Búi Davíðsson 1, Ævar Smári Gunnarsson 1, Haukur Guðmundsson 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 8, 29,6% – Einar Baldvin Baldvinsson 6/1, 46,2%.
Mörk KA: Morten Linder 7/4, Einar Birgir Stefánsson 5, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 3, Logi Gautason 3, Aron Daði Stefánsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 2, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 2, Jóhann Geir Sævarsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 9/1, 22,5% – Guðmundur Helgi Imsland 1/1, 25%.