- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum mjög sátt við okkar leik og frammistöðuna

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs og leikmenn hans fagna í einum að leikjum tímabilsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Sveiflur hafa verið í leik okkar á tímabilinu. Á stundum höfum við leikið frábærlega vel og meðal annars unnið öll lið deildarinnar en að sama skapi höfum við orðið fyrir fleiri meiðslum en í fyrra sem ef til vill skýrist af meira álagi vegna fleiri leikja í deildinni og þátttöku í Evrópukeppni,“ sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í gær.


KA/Þór hafnaði í þriðja sæti Olísdeildar kvenna, tveimur stigum á eftir deildarmeisturum Fram, þegar upp er staðið. KA/Þór varð deildarmeistari fyrir ári eftir æsispennandi kapphlaup við Fram.

Búum okkur undir úrslitakeppnina

„Á síðasta ári sluppum við betur við meiðsli í hópnum, ekki síst meðal lykilmanna. Við erum engu að síður mjög sátt við okkar leik og frammistöðu á tímabilinu. Okkar markmið að undanförnu hefur verið að búa okkur vel undir úrslitakeppnina og mæta inn í hana af miklum krafti. Við hlökkum til úrslitakeppninnar. Við erum á fínum stað þegar upp er staðið eftir Olísdeildina. Í vetur höfum við unnið Hauka í tvígang og tapað einu sinni. Haukar eru með hörkulið sem er vel þjálfað og til alls líklegt. Ég sé fram á skemmtilega leiki,“ sagði Andri Snær en KA/Þór mætir Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar fimmtudaginn 28. apríl.


KA/Þór tapaði fyrir Val með sex marka mun, 29:23, í síðustu umferð í gær. Um var að ræða úrslitaleik um annað sæti Olísdeildarinnar. Stórt strik var sett í reikning KA/Þórsliðsins á 12. mínútu þegar Rut Arnfjörð Jónsdóttur fékk beint rautt spjald.

Mikið áfall – harkaleg ákvörðun

„Við reyndum okkar besta eftir að Rut var vísað af leikvelli. Auðvitað var brottrekstur hennar okkur mikið áfall og við erum mjög ósátt við ákvörðun dómaranna. Það er mjög harkalegt að lyfta rauðu spjaldi á atvik sem er slys og alls ekki gróft. Þess utan var leikmaður Vals búin að missa af boltanum.


Við lögðum ekki árar bát og gerðum þær breytingar sem við gátum gert, lékum með sjö í sókn og aðrir leikmenn tóku að sér ný hlutverk. Ef okkur hefði tekist að hemja Lovísu þá hefðum við örugglega átt meiri möguleika þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í gær.

Lovísa Thompson leikmaður Vals skoraði 17 mörk í leiknum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -