- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum ótrúlega flottur hópur

Sunna Jónsdóttir, fyrirliði, Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskonur. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta hefur verið markmið landsliðsins að vinna sér inn keppnisrétt á EM síðan ég kom inn í hópinn fyrst, átján eða nítján ára gömul. Loksins tókst þetta. Ég á vart orð til þess að lýsa því hversu stolt ég er af þessum hóp. Ég hlakka sjúklega mikið til þess að vinna áfram með stelpunum þegar kemur að undirbúningi fyrir EM, ef ég verð valin,” sagði kampakát Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður íslenska landsliðsins þegar handbolti.is náði tali af henni á Ásvöllum í dag eftir að íslenska landsliðið tryggði sér EM-farseðilinn og annað sætið í 7. riðli undankeppninnar með sigri á færeyska landsliðinu, 24:20, í lokaumferðinni.

Flottur varnarleikur

Elín Jóna átti stórkostlegan leik í markinu, varði á annan tug skota, mörg úr opnum færum og fleytti íslenska landsliðinu yfir erfiða hjalla.

„Mér fannst vörnin vera flott fyrir framan mig og gefa mikið af sér. Við fögnuðum í hvert sinn sem tækifæri gafst. Það gaf mikla orku innan liðsins og til mín í markinu. Mér fannst við vera ótrúlega flottar að þessu leyti,” sagði Elín Jóna sem var afar sátt við frammistöðuna í úrslitaleik um annað sætið gegn kraftmiklu færeysku landsliði.

Stóðumst pressuna

„Við viljum vera betri með hverjum leiknum og settum ríka kröfu á okkur fyrir leikinn að skila góðu dagsverki. Mér fannst við gera þetta vel, stóðumst pressuna og náðum okkar markmiði en var ekki auðvelt. Við vorum með gott leikjaplan og fylgdum því, ef eitthvað fór úrskeiðis þá gerðum við breytingar. Við erum ótrúlega flottur hópur,” sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður í handknattleik í samtali við handbolta.is á Ásvöllum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -