Evrópubikarmeistarar Vals í handknattleik karla er íþróttalið Reykjavíkur 2024. Íþróttabandalag Reykjavíkur stendur fyrir valinu og hefur gert um árabil.
Valur átti frábært tímabil undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar þjálfara. Liðið varð bikarmeistarar 2024 eftir sigur á ÍBV í úrslitaleik í mars. Hápunktur tímabilsins var vafalaust sigur í Evrópubikarkeppni karla í maí. Eftir að hver andstæðingurinn á fætur öðrum lá í valnum lagði Valur gríska liðið Olympiakos í úrslitum keppninnar. Úrslitin réðust í vítakastkeppni í síðari úrslitaleiknum sem fram fór í Aþenu. Valur varð þar með fyrsta íslenska félagsliðið til þess að vinna eitt af Evrópumótum félagsliða.
Myndskeið: Vítakeppnin um Evrópugullið
Valið á íþróttaliði Reykjavíkur var tilkynnt samhliða því að útnefndur var íþróttakarl og íþróttakona Reykavíkur. Eins og handbolti.is hefur sagt frá hreppti handknattleiksmaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson nafnbótina íþróttakarl Reykjavíkur 2024. Hann var í stóru hlutverki hjá Val á síðasta keppnistímabili.