Karlalið Vals batt enda með stórglæsilegum hætti á þátttöku íslenskra félagsliða á síðasta keppnistímabili með því að vinna Evrópubikarkeppnina í tveimur úrslitaleikjum við gríska liðið Olympiakos síðla í maí.
Af þessum sökum fer vel á að karlalið Vals ríði á vaðið við þátttöku íslenskra félagsliða á nýju keppnistímabili. Fyrir dyrum standa tveir leikir hjá Valsmönnum í forkeppni Evrópudeildar gegn RK Bjelin Spacva Vinkovci frá Króatíu.
Fyrri leikurinn heima
Fyrri viðureignin verður á heimavelli Vals, N1-höllinni, laugardaginn 31. ágúst, kl. 18.30. Síðari leikurinn fer fram viku síðar í Króatíu. Af þeim sökum er hætt við að fyrirhugaður fyrsti leikur Vals 1. umferð Olísdeildar við ÍBV í Vestmannaeyjum fimmtudaginn 5. september verði færður til.
Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja á milli Vals og RK Bjelin Spacva Vinkovci tekur sæti í F-riðli Evrópudeildar með FC Porto, HC Vardar og annað hvort Melsungen eða Elverum sem mætast í tvisvar sinnum um líkt leyti og Valur og RK Bjelin Spacva Vinkovci bítast um þátttökurétt í riðlakeppninni.
FH-ingar bíða
Íslandsmeistarar FH fara beint í riðlakeppni Evrópudeildar, 32-liða, sem hefst 8. október og lýkur 25. nóvember. FH verður í H-riðli með IK Sävehof, Fenix Toulouse Handball og annað hvort Mors-Thy Håndbold eða VfL Gummersbach. Liðin gera upp reikningana 31. ágúst á Jótlandi og í Gummerbach sunnudaginn 8. september.