- Auglýsing -

Evrópudraumnum lauk í vítakeppni

- Auglýsing -


Evrópudraumi Stjörnunnar lauk í dag með tapi í vítakeppni fyrir rúmenska liðinu CS Minaur Baia Mare í Hekluhöllinni í Garðabæ, 4:3, og þar með samanlagt eins marks tapi í tveimur viðureignum, 53:52. Naumara gat það ekki verið.

CS Minaur Baia Mare tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Stjarnan situr eftir og Íslandsmeistararlið Fram verður eini fulltrúi Íslands í keppninni, alltént í karlaflokki.


Staðan var jöfn, 23:23, eftir að Ungverjinn Barnabás Rea jafnaði metin fyrir Stjörnuna á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma og annað jafntefli staðreynd. Eftir að reglan um útivallarmörk var lögð af fyrir nokkrum árum var umsvifalítið farið í vítakeppni. Jóhannesi Bjørgvin og Starra Friðrikssyni brást bogalistin úr vítakeppninni en besti maður Stjörnunnar í leiknum, Sigurður Dan Óskarsson, varði eitt vítakast frá leikmönnum Minaur Baia Mare.

Fyrst og fremst var varnarleikurinn í öndvegi hjá leikmönnum beggja liða. Eftir að staðan var jöfn, 8:8, um miðjan fyrri hálfleik tók rúmenska liðið frumkvæðið og náði mest þriggja marka forskot. Af yfirvegun tókst Stjörnunni að minnka muninn í eitt mark fyrir hálfleik, 14:13.

Allan síðari hálfleik var CS Minaur Baia Mare með yfirhöndina. Stjörnumenn virtust hinsvegar hafa níu líf eins og kötturinn. Varnarleikur liðsins gekk vel og Sigurður Dan fór á kostum í markinu. Stjörnunni tókst að mjatla inn mörkum og skora tvö þau síðustu í venjulegum leiktíma verandi manni fleiri síðustu tvær mínúturnar.


Mörk Stjörnunnar: Gauti Gunnarsson 7, Jóel Bernburg 6, Starri Friðriksson 3/3, Pétur Árni Hauksson 3, Jóhannes Bjørgvin 2, Barnabás Rea 2, Ísak Logi Einarsson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 11, 46% – Adam Thorstensen 2, 18%.

Tölfræði leiksins er frá Vísir.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -